Sjóherinn viðbúinn innrás í Taívan á þessu ári

Michael Gilday er æðsti embættismaður bandaríska sjóhersins. Hann telur brýnt …
Michael Gilday er æðsti embættismaður bandaríska sjóhersins. Hann telur brýnt að sjóherinn verði í viðbúnaðarstöðu áður en Kína reyni með valdi að ná yfirráðum í Taívan. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikilvægt er að vera undir það búin að Kína geti gert áhlaup á Taívan fyrir lok árs. Þetta er mat Michael Gilday, aðmíráll og aðgerðastjóra bandaríska sjóhersins. Hann segir bandaríska sjóherinn meta hvaða áhrif 20. aðalfundur kínverska kommúnistaflokksins hefur á starfsemi og skipulag flotans.

Í ræðu sinni á aðalfundi kínverska kommúnistaflokksins varaði Xi Jinping, forseti Kína, við aukinni spennu á alþjóðavettvangi og hét því að Taívan myndi sameinast Kína á ný. „Við munum aldrei lofa að gefast upp á valdbeitingu og áskiljum okkur þann möguleika að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana,“ sagði forsetinn.

Inntur álits á stöðunni í viðtali hjá hugveitunni Atlantshafsráðinu (Atlantic Council) sagði Gilday: „Þetta snýst ekki einvörðungu um það sem Xi forseti segir, heldur hvernig Kínverjar haga sér og hvað þeir gera. Og það sem við höfum séð undanfarin 20 ár er að þeir hafa staðið við öll loforð sem þeir hafa gefið, fyrr en þeir hafa sagst ætla að standa við þau.“

Phillip Davidson, fyrrverandi flotaforingi á Kyrrahafi, sagði varnarmálanefnd bandaríska þingsins í mars 2021 að Kína stefndi að því að ná Taívan á sitt vald innan sex ára. Hefur tímabilið fram til 2027 verið kallað „Davidson-glugginn“ vegna þessa.

Spurður um orð Davidsons, svaraði Gilday: „Þegar við tölum um 2027-gluggann, í mínum huga þarf það að vera 2022-gluggi eða hugsanlega 2023-gluggi. Ég get ekki útilokað það. Ég er alls ekki að reyna að búa til æsing með því að segja það. Málið er bara það að við getum ekki lokað augunum fyrir þeim möguleika.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert