Staðfesta aðild Svía og Finna fyrir áramót

Gergely Gulyás, ráðherra í forsætisráðuneyti Ungverjalands, tilkynnti blaðamönnum nýverið að …
Gergely Gulyás, ráðherra í forsætisráðuneyti Ungverjalands, tilkynnti blaðamönnum nýverið að tillaga um staðfestingu aðildarsamninga Svía og Finna að NATO hafi verið afhent ungverska þinginu. Ljósmynd/Facebook: Gergely Gulyás

Ríkisstjórn Ungverjalands hefur lagt fyrir ungverska þingið tillögu um staðfestingu aðildarsamnings Svíþjóðar og Finnlands að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Þetta upplýsti Gergely Gulyás, ráðherra í forsætisráðuneyti Ungverjalands, á blaðamannafundi á dögunum, að því er segir í umfjöllun Politico.

Gulyás tjáði blaðamönnum að gert væri ráð fyrir að ungverska þingið myndi staðfesta aðild ríkjanna tveggja eigi síður en í desember.

Bæði Ungverjaland og Tyrkland hafa dregið lappirnar í tengslum við staðfestingu aðildarsamninga Svíþjóðar og Finnlands, en með ákvörðun yfirvalda í Búdapest er ljóst að Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands er einn á báti í tregagangi sínum. Alls hafa þegar 28 af 30 aðildarríkjum NATO staðfest aðildarsamninga Svía og Finna.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur verið tregur til að …
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur verið tregur til að hleypa Svíum og Finnum í NATO. AFP/GABRIEL BOUYS

Tyrkir einir á báti

Svíþjóð og Finnland tilkynntu að ríkin hefðu áhuga á aðild að NATO í maí og var ástæða þess að ríkin létu af margra áratuga hlutleysisstefnu sinni; breytt öryggisumhverfi í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu.

Erdogan lýsti því þá yfir að Tyrkland myndi leggjast gegn því að formlegt aðildarferli myndi hefjast, en án samþykkis allra aðildarríkja er ekki hægt að stækka bandalagið. Ástæðan var sögð vera skjól sem Svíar og Finnar veittu kúrdískum vígamönnum.

Náðist þó samkomulag við Tyrki degi fyrir leiðtogafund í Madríd á Spáni þar sem bera átti upp tillögu um aðild ríkjanna. Gat Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, tilkynnt þann 5. júlí síðastliðinn að formlegt inngönguferli Svía og Finna væri hafið.

Telur Tyrki ekki stöðva aðild

Eins og fyrr segir hafa þegar 28 ríki staðfest aðildarsamningana og stefnir í að Ungverjaland verði 29. ríkið. Enn er óljóst hvenær Tyrkland mun staðfesta aðild Svíþjóðar og Finnlands.

Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, sagði í samtali við Politico í síðustu viku ekki telja að Tyrkland myndi hafna aðild landsins að NATO en lagði áherslu á mikilvægi þess að aðildin myndi ganga „hratt og hnökralaust“ fyrir sig.

„Ég hef rætt bæði við Orbán forsætisráðherra [Ungverjalands] og einnig Erdogan forseta [Tyrklands] um ástandið og okkar upplýsingar eru að það ættu ekki að vera nein vandamál þegar kemur að Finnlandi og umsókn okkar,“ sagði Marin.

Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, er sannfærð um að Trykri muni …
Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, er sannfærð um að Trykri muni ekki standa í vegi aðildar landsins að NATO. AFP
mbl.is