Borgarastyrjöldinni í Eþíópíu lokið

Redwan Hussien Rameto, fulltrúi eþíópísku ríkisstjórnarinnar og Getachew Reda, fulltrúi …
Redwan Hussien Rameto, fulltrúi eþíópísku ríkisstjórnarinnar og Getachew Reda, fulltrúi uppreisnarsveita í Tigray-héraði á blaðamannafundi í Suður-Afríku. AFP

Ríkisstjórn Eþíópíu og uppreisnarsveitir í Tigray-héraði hafa komist að samkomulagi um „varanlega stöðvun stríðsátaka“ í ríkinu en blóðug borgarastyrjöld hefur ríkt þar í tvö ár. 

New York Times greinir frá því að yfirlýsing hafi verið gefin út eftir friðarviðræður sem fulltrúar Suður-Afríku og Afríkusambandsins stóðu fyrir.

„Þessi stund markar ekki lok friðarferlisins, heldur upphaf þess,“ sagði Olusegun Obasanjo, fyrrverandi forseti Nígeríu, sem fór fyrir friðarviðræðunum.

Borgarastyrjöldin hófst í nóvember árið 2020 og hefur leitt til víðtækrar eyðileggingar og grimmdarverka. Þúsundir hafa látist og milljónir eru á flótta. Þá hefur styrjöldin leitt til þess að margir íbúar eru á barmi hungursneyðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert