Hafa rætt beitingu kjarnavopna

Hermenn rússneska þjóðvarðliðsins á göngu fyrir utan Kreml. Ekki hafa …
Hermenn rússneska þjóðvarðliðsins á göngu fyrir utan Kreml. Ekki hafa sést merki um undirbúning kjarnavopnaárásar. AFP

Háttsettir yfirmenn innan rússneska hersins hafa nýverið rætt sín á milli um hvenær og hvernig megi beita kjarnavopni í Úkraínu. Umræðurnar hafa aukið enn frekar á áhyggjur ráðamanna í Washington og öðrum höfuðborgum Vesturlanda, þar sem upplýsingunum hefur verið deilt.

Dagblaðið New York Times greinir frá þessu og hefur eftir embættismönnum úr efri lögum bandaríska stjórnkerfisins.

Forsetinn Vladimír Pútín mun ekki hafa tekið þátt í umræðunum. Þær hafa þó átt sér stað á sama tíma og hann sjálfur hefur hert orðræðu sína og látið í veðri vaka að Rússland kunni að beita kjarnavopnum.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti stýrði æfingu kjarnavopnasveita hersins fyrir um viku.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti stýrði æfingu kjarnavopnasveita hersins fyrir um viku. AFP

Ríkisstjórninni brugðið

Segir í umfjöllun blaðsins að bandarísku ríkisstjórninni hafi brugðið við þær fregnir að háttsettir rússneskir herforingjar væru yfir höfuð að ræða beitingu kjarnavopna.

Sú staðreynd sýndi að hennar mati fram á hversu gremjufullir Rússar væru vegna slæms gengis á vígvellinum og gaf einnig til kynna að lítt duldar kjarnavopnahótanir Pútíns væru ef til vill ekki orðin tóm.

Tekið er þó fram að engin merki hafi sést um að Rússar hefðu fært kjarnavopn í skotstellingar eða gert aðrar ráðstafanir til að undirbúa slíka árás.

Allt að tvö þúsund kjarnaoddar

Upplýsingum um þessar samræður rússnesku herforingjanna var deilt innan ríkisstjórnarinnar vestanhafs um miðjan októbermánuð.

Um er að ræða svokölluð taktísk kjarnavopn, sem eru smærri en hefðbundin kjarnavopn og eru hönnuð til að beita á vígvellinum á móti hefðbundnum hernaði.

Talið er að rússnesk stjórnvöld búi yfir allt að tvö þúsund kjarnaoddum af þessari gerð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert