„Pútín er orðinn klikkaður“

Rússneskir hermenn á hlaupum um Rauða torgið í miðborg Moskvu, …
Rússneskir hermenn á hlaupum um Rauða torgið í miðborg Moskvu, en frá borginni er innrásinni í Úkraínu stjórnað. AFP

Það sem kom mér mest á óvart var hvernig fólkið í kringum Pútín vissi um ástand hersins. Og hann ekki. Það var mesta áfallið fyrir mig.“

Þetta segir Christo Grozev, sem leitt hefur rannsóknir miðilsins Bellingcat í málefnum Rússlands og varpað ljósi á ýmis ódæðisverk rússnesku ríkisstjórnarinnar.

Á fundi með Grozev í Helsinki spurði blaðamaður mbl.is hvað hefði valdið honum mestri furðu í tengslum við innrás Rússa í Úkraínu.

Greindi hann þá meðal annars frá upplýsingum sem hann fékk innan úr rússneska hernum undir lok síðasta árs.

Christo Grozev hefur leitt rannsóknir Bellingcat í málefnum Rússlands.
Christo Grozev hefur leitt rannsóknir Bellingcat í málefnum Rússlands. AFP

Sáu stríð í uppsiglingu í desember

„Ég átti fundi með nokkrum rússneskum ofurstum í desember. Þá vissum við að stríðið væri í undirbúningi, því að þessir ofurstar komu til okkar mjög skelkaðir og vöruðu okkur við:

„Pútín er orðinn klikkaður, hann vill hefja stríð. Fattar hann ekki,“ sögðu þeir, „fattar hann ekki að herinn er eins á sig kominn og efnahagurinn? Hvernig sér hann það ekki?“

Svo að þetta var áfall. Hvernig stendur á því að hann er svona illa upplýstur?“ spyr Grozev.

„Annað sem kom mér að einhverju leyti á óvart, var að ekkert af þeim milljörðum sem FSB hafði eytt í Úkraínu, til að undirbúa innviði til stuðnings innrás Rússa, skilaði sér. Jafnvel útsendarar sem höfðu verið keyptir af Rússum, enginn þeirra skilaði þeirri þjónustu sem borgað hafði verið fyrir.

Skyndileg breyting úr spillingu, sem iðulega hefur plagað Úkraínu, og yfir í föðurlandsást, átti sér stað í einu vetfangi. Ég átti von á meiri föðurlandssvikum og spillingu í Úkraínu en raun ber vitni.“

Áróðursvélin gengur heima fyrir

Hann segir ljóst að áróður rússneskra stjórnvalda virki enn vel innanlands, þó að aðgerðir þeirra utan landsteinanna séu ef til vill svipur hjá sjón.

„Ég get nefnt eitt dæmi. Sami ofurstinn og kom til mín í desember. Hann var svo mikið á móti stríði í desember – nógu mikið til að koma og vara mig við. Nokkrum mánuðum síðar var hann bara: „Við verðum að vinna, við verðum að vinna“.

Ég spurði hann: „Manstu hvað þú sagðir í desember?“ Hann svaraði: „Já, en í desember var ég enn að nota Twitter. Nú er ég ekki lengur með Twitter.“

Þannig að hann, er hann leit inn á við, sagði að þetta væri afleiðing þess að nota aðeins rússneska miðla. Þetta virkar þess vegna fyrir innanlandsmarkað.“

Höfuðstöðvar rússnesku leyniþjónustunnar FSB í Moskvu.
Höfuðstöðvar rússnesku leyniþjónustunnar FSB í Moskvu. AFP

Á drápslista rússnesku leyniþjónustunnar

Spurður hvort hann óttist um líf sitt segist Grozev vita að hann og blaðamenn Bellingcat séu á lista rússnesku leyniþjónustunnar FSB yfir fólk sem ráða þurfi af dögum.

„En þau standa frammi fyrir miklu stærri vandamálum sem ógna tilvist þeirra.“

Bendir hann á að í stjórnkerfinu í Moskvu sé fólk frekar upptekið af starfsöryggi sínu og framtíð en af þessum búlgarska rannsóknarblaðamanni, sem þó hefur reynst stjórnvöldum þar óþægur ljár í þúfu.

„Ég held að Kreml og FSB séu að reyna að finna út úr því hvernig þau lifa af. Þau eru í raun að reyna að ráða fram úr því hvort þau skuli hlýða skipunum þessarar ríkisstjórnar, því kannski verður hún ekki lengur til staðar eftir ár, og hver mun þá verja þau.“

Hann tekur fram að vissulega óski Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Jevgení Prígosjín, náinn bandamaður hans og stjórnandi Wagner-hópsins, honum vafalaust þegjandi þörfina.

Hræddari við brjálæðinga en FSB

„Ég held því að einhverju leyti að við höfum mjög reiðan Pútín, við höfum mjög reiðan Prígosjín, og að við höfum einnig reitt fólk, á borð við um það bil þrjátíu fyrrverandi útsendara á vegum (rússnesku leyniþjónustunnar) GRU, sem höfðu frábært starf þar sem þeir ferðuðust um heiminn fyrir pening ríkisins og eitruðu fyrir fólki, en geta nú ekki ferðast vegna okkar.

Ég held að þetta sé fólkið sem vill drepa okkur. En ef á heildina er litið þá er FSB ekki rekin áfram af hugmyndafræði. Þar er fólk líklega að hugsa hvað sé næst fyrir það sjálft og vill ekki taka neina áhættu.

Ég er því hræddari við brjálaða rússneska ættjarðarvini en sjálft FSB, að svo stöddu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert