Hundruð loftslagsaðgerðasinna ruddust inn á flugbraut á Schiphol-flugvellinum í Amsterdam í dag og töfðu för einkaþotna, sem ætti að þeirra mati að banna.
Landamæralögregluverðir handtóku hundruð manna vegna mótmælanna sem hófust á hádegi. Þau voru skipulögð af samtökunum Grænfriðungar og Extinction Rebellion, sem hafa staðið fyrir fjölbreyttum loftslagsmótmælum síðustu misseri.
Reiðhjólum var líka komið fyrir innan flugbrautarinnar og slagorð sungin á borð við „niður með flug“ og „Schiphol, umhverfismengarar“.
Talsmaður Grænfriðunga, Faiza Oulahsen, segir í samtali við AFP-fréttaveituna að skilaboðin sem verið sé að koma á framfæri séu einfaldlega þau að flugferðum þurfi að fækka. Þá liggi beinast við að byrja á einkaþotum og styttri flugferðum.
Lögreglan á Schiphol-flugvellinum segist líta málið alvarlegum augum. Mótmælendurnir megi eiga von á ákærum fyrir veru þeirra á flugbrautinni í óleyfi.
Einhverjir mótmælendur reyndu að flýja réttvísina á reiðhjólum og voru snúnir niður af lögreglu. Grænfriðungar mótmæla þeim aðgerðum lögreglu og segja aðferðir hennar hafa verið fantalegar.