Musk kynnir nýja Twitter-áskrift til leiks

Elon Musk festi kaup á samfélagsmiðlinum Twitter fimmtudaginn 27. október. …
Elon Musk festi kaup á samfélagsmiðlinum Twitter fimmtudaginn 27. október. Talið er að virði samningsins nemi um 44 milljörðum Bandaríkjadala. AFP

Twitter hleypti nýrri áskriftarþjónustu af stokkunum í dag þar sem notendur geta greitt átta dali á mánuði til þess að fá bláa sönnunarstimpilinn við hlið nafns síns. Þetta er hluti af fjölþættum breytingum sem Elon Musk, nýr eigandi og forstjóri miðilsins, stendur fyrir.

Blái stimpillinn hefur hingað til verið notaður til þess að auðkenna raunverulega aðganga þekktra notenda. Þannig geti fólk gengið úr skugga um að aðgangurinn sé raunverulega undir stjórn þess nafns sem sé tengt honum. 

Nú munu notendur geta greitt mánaðarlegt gjald til þess að fá slíkan sönnunarstimpil við hlið síns eigin nafns, óháð því hvort þeir séu frægir. Þjónustan verður fyrst um sinn eingöngu aðgengileg í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjálandi undir nafninu Twitter Blue.

Völdin til fólksins

Í uppfærslu Twitter er þjónustunni lýst sem svo:

„Færum völdin í hendur fólksins: þinn aðgangur fær bláan sönnunarstimpil, alveg eins og fræga fólkið, fyrirtækin og stjórnmálamennirnir sem þú fylgir nú þegar.“

Mikið hefur verið rætt og ritað um stjórnarhætti Musk sem hefur komið eins og stormsveipur inn í stjórn og forstjórasæti fyrirtækisins. Fyrrverandi forstjóri og stofnandi miðilsins, Jack Dorsey, bað starfsmenn fyrirtækisins afsökunar á eigin ákvörðunum í kjölfar þess að Musk sagði upp helmingi starfsmanna fyrirtækisins. 

Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðana, Volker Turk.
Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðana, Volker Turk. AFP

Mannréttindafulltrúi lætur sig málið varða

Þá sendi mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðunum, Volker Turk, opið bréf til Musk í dag þar sem hann er hvattur til þess að muna eftir skyldum miðilsins á sviði mannréttindamála.

Þar var sérstaklega gerð athugasemd við það að mannréttindadeild fyrirtækisins var lögð niður í heild sinni í þessari fyrstu umferð niðurskurðar. Turk sagði það vera heldur óheppilegt fyrsta skref.

Turk lagði áherslu á að Twitter væri alþjóðlegur, starfrænan umræðuvettvangur og því hvíldu ríkar skyldur á stjórnendum hans að virða mannréttindi í hvívetna og vernda þau. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert