Segir ferðina til Kína hafa verið þess virði

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, varði umdeilda heimsókn sína til Kína og færði rök fyrir því að hún hafi verið „þess virði“ vegna kjarnavopnasamkomulags við yfirvöld þar í landi.

Þetta kom fram í ræðu kanslarans á fundi Sósíaldemókrataflokksins í dag. Hann greindi frá því að á þeim tólf klukkustundum sem hann varði í Kína hefði hann fundað með Xi Jinping aðalritara Kommúnistaflokksins og ítrekað mikilvægi þess að ekki verði gripið til kjarnavopna í tengslum við innrás Rússlands í Úkraínu. 

„Í ljósi allrar umræðunnar um hvort það hafi verið rétt að ferðast þangað eða ekki – sú staðreynd að kínversk stjórnvöld, forsetinn og ég gátum lýst því yfir að það megi ekki nota nein kjarnorkuvopn í þessu stríði – fyrir það eitt og sér var þessi ferð þess virði,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Scholz.

Scholz sagðist enn fremur hafa beitt sér fyrir því að bandamenn Rússa í Peking myndu beita sér fyrir því að stigmögnun í átökum Rússa og Úkraínumanna yrði afstýrt

Olaf Scholz ásamt Xi Jinping í Peking.
Olaf Scholz ásamt Xi Jinping í Peking. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert