Bretar fá frí vegna krýningar Karls

Karl er nú þegar konungur en hann verður krýndur í …
Karl er nú þegar konungur en hann verður krýndur í maí. AFP

Bretar munu fá almennan frídag vegna krýningar Karls III í maí, nánar tiltekið mánudaginn 8. maí, en krýningin sjálf fer fram þann 6. maí við hátíðlega athöfn í Westminster Abbey.

Þegar krýningin fer fram verða átta mánuðir liðnir fá andláti Elísabetar II. Athöfninni er ætlað að endurspegla sögu konungdæmisins, hefðir þess og stöðu þess í nútímasamfélagi, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá bresku hirðinni. 

Karl tók við konungsembættinu strax við fráfall Elísabetar, en venjan er að krýning fari ekki fram fyrr en að liðnum nokkrum mánuðum, svo landsmenn fái tíma til að syrgja, og hirðin fái tíma til að skipuleggja. 

Sjötíu ár verða liðin frá því að krýningarathöfn fór síðast fram, en það var krýning Elísabetar árið 1953. 

mbl.is