Segir kaþólsku kirkjuna vera að gera sitt besta

Frans páfi á blaðamannafundinum í dag sem var haldinn í …
Frans páfi á blaðamannafundinum í dag sem var haldinn í flugvél á leið til Rómar. AFP

Frans páfi segir kaþólsku kirkjuna vera að gera sitt besta við að uppræta mál tengd barnaníði presta innan sinna raða. Hann viðurkennir þó að betur megi ef duga skuli.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem páfinn hélt um borð í flugvél í dag á leið til Rómar frá Barein. 

Ekki allir á einu máli innan kirkjunnar

„Við erum að gera okkar besta en það er fólk innan kirkjunnar sem sér þetta ekki jafn greinilega,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Fransi páfa.

Páfinn hefur haldið því fram að kirkjan hafi enga þolinmæði fyrir málum af þessu tagi en stofnunin hefur verið gagnrýnd fyrir að hafa farið mjúkum höndum um gerendur um áratugaskeið. 

„Þetta mál er í stöðugri skoðun og við erum að taka á því af hugrekki,“ sagði páfinn í dag en viðurkenndi að mál hefðu verið þögguð niður í fortíðinni og hét því að gagnsæi yrði haft að leiðarljósi héðan í frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert