Fimm lykilríki sem fylgjast þarf með

Forsetinn Joe Biden er ekki á kjörseðlinum. Kjósendur líta þó …
Forsetinn Joe Biden er ekki á kjörseðlinum. Kjósendur líta þó meðal annars til afreka hans á kjörtímabilinu. AFP

Líklegt er talið að repúblikanar muni ná meirihluta í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, þegar talið verður upp úr kjörkössunum í miðkjörtímabilskosningunum í nótt að íslenskum tíma.

Kosið er í öll þingsæti deildarinnar, 435 talsins. Á sama tíma er kosið í 35 sæti öldungadeildarinnar, en þar er öllu mjórra á munum samkvæmt þeim könnunum sem gerðar hafa verið í aðdraganda kosninganna.

Fyrir kosningarnar hafa repúblikanar þar 50 þingmenn og demókratar 48, auk tveggja óháðra þingmanna sem fylkja sér með flokknum. Staðan er því 50-50, en Kamala Harris varaforseti fer með oddaatkvæðið þegar atkvæði standa jöfn.

Úrslit kosninga um að minnsta kosti átta, af þessum 35 sætum, eru talin óljós. Baráttan um völdin mun þó líklega ráðast af útkomunni í fimm lykilríkjum. Hér verður farið yfir þau í stuttu máli.

Pennsylvanía í skotsigti demókrata

Forskot demókratans Johns Fetterman, á keppinaut sinn sjónvarpslækninn Mehmet Oz, úr röðum repúblikana, hefur gjörsamlega gufað upp á síðustu mánuðum.

Nú er svo komið að vart sér á milli þeirra í niðurstöðum kannana í ríkinu.

Fetterman er enn að jafna sig á heilablóðfalli sem hann varð fyrir í maí. Afleiðingar þess settu mark sitt á einu kappræðurnar sem frambjóðendurnir tveir hafa átt, þar sem demókratinn átti erfitt með að koma skilaboðum sínum á framfæri. Hefur frammistaðan þar því ekki hjálpað honum heldur.

John Fetterman mætti á kjörstað í morgun ásamt eiginkonu sinni, …
John Fetterman mætti á kjörstað í morgun ásamt eiginkonu sinni, Gisele. AFP

Barist er um sæti þingmanns repúblikana, sem nú er á útleið, en um er að ræða raunhæfasta möguleikann í augum demókrata á að breyta öldungadeildarsæti úr rauðu í blátt.

Framboð Fettermans hefur málað Oz upp sem moldríkan tækifærissinna frá New Jersey, sem lítil tengsl hafi við ríkið og sömuleiðis lítil tengsl við almenna borgara.

Andstæðingar Fettermans hafa á sama tíma dregið í efa getu hans til að stjórna, í kjölfar heilablóðfallsins, auk þess sem hann hefur verið gagnrýndur fyrir að hafa skipað fyrir um of mjúka löggæslu í ríkinu, sem vararíkisstjóri Pennsylvaníu.

Mehmet Oz hefur verið gagnrýndur meðal annars fyrir að koma …
Mehmet Oz hefur verið gagnrýndur meðal annars fyrir að koma ekki frá Pennsylvaníu. AFP

Nevada veltur á kjörsókn rómanskættaðra

Lengi munaði minnstu í Nevada, samkvæmt könnunum á þessu ári, þegar horft var yfir slagina um öldungadeildarsæti í ríkjunum 35.

Frambjóðandi repúblikana, Adam Laxalt, hefur þar 0,6 prósentustiga forskot á sitjandi öldungadeildarþingmann demókrata, Catherine Cortez Masto, samkvæmt samantekt RealClearPolitics á könnunum vestanhafs.

Demókratar hafa þar mestar áhyggjur af kjörsókn fólks af rómönskum uppruna, þrátt fyrir að Cortez Masto sé fyrsta rómanskættaða konan til að hljóta kosningu í öldungadeildina.

„Það er það sem heldur fyrir mér vöku á nóttunni,“ sagði Melissa Morales, sem fer fyrir stuðningshópi þingmannsins, í samtali við NBC.

„Það sem ég horfi á er: Munu latínóar í raun koma út og kjósa í ár? Ef við sjáum mikla kjörsókn, þá sigrum við í Nevada.“

Georgía helsta von repúblikana

Frambjóðandi repúblikana í Georgíu, Herschel Walker, hefur verið helsta von flokksins um að breyta bláu sæti í rautt. Keppir hann við sitjandi öldungadeildarþingmanninn og prestinn Raphael Warnock.

Walker er þekktur fyrir feril sinn í amerískum fótbolta og sú frægð þykir hafa haldið honum í baráttunni þrátt fyrir ýmis persónuleg glappaskot.

Samkvæmt könnunum hefur hann um 1,4 prósentustiga forskot á Warnock.

Þingmaðurinn hefur lagt áherslu á að minnka kostnað við lyfseðilsskyld lyf, baráttu gegn loftslagsbreytingum og rétt til þungunarrofs.

Walker hefur á sama tíma lagt áherslu á efnahaginn í skilaboðum sínum til kjósenda. Þá hefur hann einnig talað harðlega gegn þungunarrofi.

Samt sem áður hefur komið í ljós að hann borgaði tveimur fyrrverandi kærustum fyrir að rjúfa þunganir sínar. Auk þess hefur hann verið sakaður um heimilisofbeldi og að hafa eignast börn utan hjónabands síns.

Í Georgíu gilda aftur á móti aðrar reglur en í flestum öðrum ríkjum, þar sem sigurvegarinn þarf að tryggja sér minnst 50% atkvæða. Annars er kosið að nýju á milli tveggja efstu. Þykir líklegt að Warnock fengi til sín fleiri atkvæði þeirra sem kjósa frambjóðendur „þriðju flokka“ en Walker.

Á brattann að sækja fyrir sitjandi þingmann

Öldungadeildarsæti repúblikanans Robs Portman fyrir Ohio, sem nú er á leið á eftirlaun, var áður talið fela í sér besta möguleika demókrata á að næla sér í annað þingsæti.

Samflokksmaður hans, J.D. Vance, hefur þó viðhaldið stöðugu en samt sem áður mjóu forskoti í könnunum í Ohio, eftir brösuga byrjun.

Demókratinn Tim Ryan, sem hefur verið þingmaður ríkisins í fulltrúadeildinni undanfarna tvo áratugi, hefur aðeins verið yfir keppinaut sínum í tveimur af fimmtán stærstu könnunum.

Vance varð fyrst þekkt­ur vest­an­hafs fyr­ir bók sína Hill­billy El­egy sem kom út árið 2016. Hún vakti mikla at­hygli og þótti skýra þann mikla stuðning sem Donald Trump fékk frá hvít­um kjós­end­um úr verka­manna­stétt.

Vance er dyggur stuðningsmaður Trumps og forsetinn fyrrverandi hefur endurgoldið honum greiðann.

Efnahagsmálin brenna mest á kjósendum í Ohio, eins og þau gera þegar litið er yfir öll Bandaríkin. Verðbólga og framfærslukostnaður vega þyngst, en þar á eftir fylgir réttur til þungunarrofs.

Mandela Barnes hefur áfram reynt að afla atkvæða í Wisconsin …
Mandela Barnes hefur áfram reynt að afla atkvæða í Wisconsin í dag. AFP

Taflið snúist við í Wisconsin

Í Wisconsin átti öldungadeildarþingmaðurinn Ron Johnson, úr röðum repúblikana, erfitt uppdráttar í könnunum í sumar. Um miðjan september tók hann aftur á móti fram úr andstæðingi sínum, Mandela Barnes.

Er hann nú með 3,3 prósentustiga forskot, ef tekið er meðaltal síðustu 16 kannana.

Rétt eins og Fetterman er Barnes vararíkisstjóri sem sakaður hefur verið um linkind í garð glæpa, sér í lagi vegna baráttu hans fyrir því að vægari skilyrði verði sett fyrir því að sakborningar séu látnir lausir gegn tryggingu.

Fyrrverandi forsetinn Barack Obama hefur gagnrýnt Johnson sem einhvern „sem skilur betur skattaafslætti fyrir einkaflugvélar en hann skilur að tryggja þurfi að eldri borgarar, sem hafa unnið allt sitt líf, geti farið á eftirlaun og haldið í virðingu sína“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert