Segir árásina hafa áhrif á áframhaldandi þingsetu

Nancy Pe­losi, for­seti full­trúa­deild­ar Banda­ríkjaþings.
Nancy Pe­losi, for­seti full­trúa­deild­ar Banda­ríkjaþings. AFP/ Drew Angerer/Getty Images

Árásin á Paul Pelosi, eiginmann Nancy Pe­losi, for­seta full­trúa­deild­ar Banda­ríkjaþings, mun hafa áhrif á hvort Pelosi starfar áfram fyrir fulltrúadeildina eftir þingkosningar í Bandaríkjunum sem fara fram í dag. 

Í viðtali við CNN greindi Pelosi frá þessu. Þá hvatti hún repúblikana til að stöðva dreifingu lyga sem ýttu undir pólitískt ofbeldi og hvatti Bandaríkjamenn til að „kjósa til að verja lýðræðið“.

Pelosi viðurkenndi að hún væri „nærri tárum“ er hún talaði um árásina á eiginmann hennar sem er 82 ára gamall. 

„Sorgmædd fyrir landið okkar“

Paul Pelosi hlaut höfuðkúpu­brot og áverka á hægri hand­legg og hönd­um er maður braust inn á heimili hjónanna í síðustu viku. Nancy Pelosi var ekki heima er atvikið átti sér stað. 

„Fyrir mér er það erfiðasti hlutinn, vegna þess að Paul var ekki skotmarkið og það er hann sem geldur fyrir það,“ sagði Pelosi í viðtalinu, en þetta er í fyrsta sinn sem hún talar um árásina opinberlega.

„Ég er sorgmædd út af eiginmanninum mínum, en ég er einnig sorgmædd fyrir landið okkar,“ sagði hún og vísaði til þess að árásin bergmálaði árásina á þinghúsið í Washingtonborg í janúar í fyrra. 

„Ég vil bara að fólk kjósi og við munum virða útkomuna, ég vona að hin hliðin geri það líka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert