Kínverjar slaka örlítið á sóttvarnaraðgerðum

Li Keqiang forsætisráðherra Kína á málþingi í Phnom Penh í …
Li Keqiang forsætisráðherra Kína á málþingi í Phnom Penh í dag. AFP/Tang Chin Sothy

Kínversk stjórnvöld ætla að draga úr takmörkunum vegna kórónuveirunnar en tilkynnt var um breytingarnar í dag. 

Tíðindin komu nokkuð á óvart því að undanförnu hafa skilaboðin frá stjórnvöldum verið á þá leið að áfram verði harðar aðgerðir vegna faraldursins. Síðast í gær voru send út skilaboð þess efnis. 

Afleiðingarnar fyrir efnahagslífið í Kína hafa verið geysilega miklar og ef til vill á það sinn þátt í því að stjórnvöld gefa nú eftir í afstöðu sinni. 

Þótt nú sé örlítið slakað á klónni þá eru sóttvarnaraðgerðirnar í Kína þó enn mun meiri en hjá öðrum efnahags stórveldum. Þeir sem ferðast til Kína þurfa nú að vera í einangrun í átta daga í stað tíu. Fimm daga á vegum hins opinbera og þrjá daga í heimahúsi. 

Þeir sem fljúga til Kína þurfa að sýna fram á neikvætt próf sem tekið er 48 tímum fyrir brottför. Áður þurftu ferðalangar að sýna fram á tvö neikvæð próf. 

mbl.is