Segist ekki hafa farið á sjúkrahús

Sergei Lavrov.
Sergei Lavrov. AFP/Tang Chhin Sothy

María Zakharova, talskona rússneska utanríkisráðuneytisins, hefur sett myndskeið á samfélagsmiðla þar sem Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, situr við borð í stuttermabol og stuttbuxum.

Þar ræðir Zakarova við Lavrov, skömmu eftir að þó nokkrir fjölmiðlar sögðu að hann hefði verið fluttur á sjúkrahús.

„Við erum hérna með Sergei Viktorovich (Lavrov) í Indónesíu, lesum fréttirnar og trúum ekki okkar eigin augum,“ sagði Zakharova.

„Þetta er hæsta stig falsfrétta.“

Lavrov sagði að fréttirnar væru „einhvers konar leikur“ og skellti hann skuldinni á vestræna fjölmiðla.

„Þeir hafa skrifað um það í tíu ár að forsetinn okkar sé veikur,“ sagði hann.

AP-fréttastofan hafði það eftir þremur heimildarmönnum að Lavrov hefði verið fluttur á sjúkrahús og sögðu tveir þeirra að hann hefði verið fluttur þangað vegna hjartavandamála.

Þessu vísaði Zakharova á bug á samfélagsmiðlinum Telegram og sagði að um falsfrétt væri að ræða.

Síðar hafði Sky News eftir indónesískum yfirvöldum að Lavrov hefði verið fluttur á sjúkrahús til að fara „í skoðun“ en að hann hefði verið „útskrifaður fljótt“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert