Rússneskar flaugar drápu tvo í Póllandi

Reykur liðast um sjóndeildarhringinn í borginni Lvív í vesturhluta Úkraínu …
Reykur liðast um sjóndeildarhringinn í borginni Lvív í vesturhluta Úkraínu í dag, skammt frá landamærunum að Póllandi. AFP

Bandarískur embættismaður hefur staðfest fregnir um að rússneskar eldflaugar hafi orðið  tveimur að bana í Póllandi, skammt frá landamærum Úkraínu.

Umfangsmiklar eldflaugaárásir Rússa hafa herjað víða á nágrannaríkið Úkraínu í dag. 

Pólland hefur ekki átt beinan þátt í stríðinu til þessa, en landið er aðili að Atlantshafsbandalaginu (NATO).

Áríðandi fundur þjóðaröryggisnefndar

Fyrr í kvöld greindi mbl.is frá því að Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, hefði boðað þjóðaröryggis- og varnarmálanefnd landsins til áríðandi fundar, en talsmaður ríkisstjórnarinnar, Piotr Müller, hafði tilkynnt um fundinn.

Müller nefndi ekki ástæðu fyrir þessu brýna fundarboði. Óstaðfestar fregnir hermdu þó að ein eða jafnvel tvær eldflaugar hefðu farið inn fyrir landamæri Póllands og orðið þar tveimur að bana.

Nú hefur það fengist staðfest, eins og áður sagði, samkvæmt heimildarmanni AP innan bandaríska stjórnkerfisins.

Nefndinni, sem saman stendur af ráðherrum varnarmála og dómsmála, auk innanríkis- og utanríkisráðherranna, er ætlað að undirbúa og samhæfa ákvarðanir sem tengjast þjóðaröryggi og varnarmálum Póllands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert