„Við verðum að bregðast við“

Selenskí ávarpaði þjóð sína í kvöld.
Selenskí ávarpaði þjóð sína í kvöld. AFP

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, sakar Rússland um að hafa skotið eldflaugum á Pólland.

Segir hann árásina „mjög þýðingarmikla stigmögnun“ á innrás Rússa, sem hófst þann 24. febrúar og staðið hefur yfir síðan.

„Í dag hæfðu rússneskar eldflaugar Pólland, svæði bandalagsríkis. Fólk lét lífið. Vinsamlegast þiggið samúðarkveðjur okkar,“ sagði forsetinn er hann ávarpaði þjóð sína í kvöld.

Árás á sameiginlegt öryggi

Fann hann að því að rússnesk stjórnvöld hefðu ekki sætt nægilega alvarlegum afleiðingum vegna gjörða sinna.

„Þeim mun lengur sem Rússland finnur fyrir þessari friðhelgi, þeim mun meiri ógn steðjar að öllum þeim sem eru innan færis rússneskra flauga. Að skjóta eldflaugum á landsvæði NATO er rússnesk árás á sameiginlegt öryggi. Þetta er mjög alvarleg stigmögnun. Við verðum að bregðast við,“ sagði Selenskí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert