Segja ljósmyndir sýna úkraínska eldflaug

Pólska lögreglan að störfum í morgun þar sem tveir fórust …
Pólska lögreglan að störfum í morgun þar sem tveir fórust í eldflaugaárás. AFP/Wojtek Radwanski

Rússar segja að ljósmyndir frá staðnum þar sem sprengingar urðu í Póllandi sýni brot úr úkraínskri eldflaug. Þeir segja einnig að eldflaugarnar sem þeir skutu að Úkraínu í gær hafi ekki lent nær en 35 kílómetrum frá pólsku landamærunum.

Tveir almennir borgarar í pólsku þorpi við landamærin að Úkraínu fórust í árásinni. 

Hér má sjá ljósmynd frá pólskum yfirvöldum af gíg sem myndaðist eftir að eldflaug lenti þar í gær, að því er BBC greindi frá:

„Með því að skoða ljósmyndir af rústunum....voru rússneskir hernaðarsérfræðingar sammála um að á þeim sæjust brot úr eldflaug úr úkraínska S-300-eldflaugavarnarkerfinu,“ sagði rússneska varnarmálaráðuneytið í yfirlýsingu.

„Nákvæmar árásir voru gerðar, eingöngu á fyrirfram ákveðin skotmörk, á úkraínsk landsvæði og fjarlægðin var 35 kílómetrum eða meira frá landamærum Úkraínu og Póllands,“ sagði ráðuneytið einnig um árásir Rússa á Úkraínu í gær.  

Neita að hafa skotið á Kænugarð

Rússneska varnarmálaráðuneytið neitar því jafnframt að hafa skotið eldflaugum á Kænugarð, höfuðborg Úkraínu í gær.

„Öll eyðileggingin sem úkraínsk stjórnvöld sýndu á íbúasvæðum í úkraínsku höfuðborginni er bein afleiðing falls og sjálfseyðingar eldflauga úr eldflaugavarnarkerfi sem úkraínskar hersveitir skutu á loft,“ sagði ráðuneytið.

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP/Saul Loeb

Hrósuðu Bandaríkjamönnum

Rússnesk stjórnvöld í Kreml hrósuðu sömuleiðis „yfirveguðum“ viðbrögðum bandarískra stjórnvalda eftir að eldflaugin lenti í Póllandi. Áður hafði Joe Biden Bandaríkjaforseti sagt það „ólíklegt“ að hún hafi komið frá Rússlandi.

„Á þessari stundu ætti athyglin að beinast að yfirveguðum og fagmannlegum viðbrögðum frá Bandaríkjunum,“ sagði Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlar.

„Í sambandi við atvikið í Póllandi, þá hafði Rússland ekkert með það að gera.“

Ludivine Dedonder (til vinstri).
Ludivine Dedonder (til vinstri). AFP/Eric Lalmand

Belgar benda einnig á Úkraínumenn

Belgíski varnarmálaráðherrann Ludivine Dedonder, greindi frá því yfirlýsingu í morgun, að sprengingin sem varð í Póllandi hafi líklega orðið af völdum eldflauga úr eldflaugavarnarkerfi Úkraínu sem var skotið á rússneskar eldflaugar.

„Rannsakendur okkar, sem eiga í nánum samskiptum við NATO, rannsaka nú eldflaugaárásirnar í Póllandi í gærkvöldi,“ sagði í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert