Selenskí: „Ekki okkar eldflaug“

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu.
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu. AFP

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu segir að eldflaugin, sem lenti í pólsku landamæraþorpi og felldi tvo í gær, sé rússnesk.

„Ég tel engan vafa leika á því að þetta er ekki okkar eldflaug,“ segir Selenskí í ávarpi til fjölmiðla í dag. „Ég trúi því að þetta hafi verið rússnesk eldflaug. Það er samkvæmt upplýsingum Úkraínuhers.“

Er þetta þvert á það sem vestræn ríki halda fram en Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins og Andrzej Duda, forseti Póllands, segja eldflaugina hafa verið úkraínska. Árásin hafi ólíklega verið gerð af ásettu ráði.

Lenti nærri grunnskóla

Eldflaugin varð tveimur mönnum á sjötugsaldri að bana þegar hún lenti í pólska þorpinu Przewodow í suðausturhluta landsins, sex kílómetrum frá úkraínsku landamærunum um hádegisbil í gær.

Íbúar á svæðinu segja eldflaugina hafa lent á kornþurrkunarstöð nærri grunnskóla. Sama dag skutu rússnesk stjórnvöld um hundrað eldlaugum á úkraínskar borgir, þar á meðal borgina Lvív, sem liggur nærri pólsku landamærunum.

Vilja aðgang

Úkraínsk stjórn­völd hafa þegar beðið um að fá aðgang að staðnum þar sem eldflaugin kom niður.

„Úkraína biður um að fá aðgang þegar í stað að staðnum þar sem spreng­ing­in varð,“ sagði fram­kvæmda­stjóri þjóðarör­ygg­is- og varn­ar­ráðs Úkraínu, Oleksí Dani­lov, fyrr í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert