Heim frá Katar með 1.144 krónur

Umgjörðin er glæsileg en oft er flagð undir fögru skinni …
Umgjörðin er glæsileg en oft er flagð undir fögru skinni eins og máltækið segir. HM í Katar hefur kostað mannslíf, skort og örbirgð. AFP/Philip Fong

Kröpp kjör og bágar aðstæður erlends verkafólks í Katar er nokkuð sem fjölmiðlar heimsins hafa beint athygli sinni að nú í aðdraganda heimsmeistaramóts í knattspyrnu er þar hefst á sunnudaginn.

Ekki er langt síðan mbl.is greindi frá því er fjölda verkafólks af asískum og afrískum uppruna var gert að yfirgefa leiguíbúðir sínar í miðborg höfuðborgarinnar Doha, einfaldlega svo bjóða mætti þær knattspyrnuáhorfendum til leigu meðan á mótinu stæði. Svaf fólkið á gangstéttum og í almenningsgörðum, eða bara hvar sem það gat höfði hallað, þegar fréttamenn Reuters-fréttastofunnar áttu þar leið um í október.

Þá hefur Bjarni Helgason íþróttafréttamaður farið yfir umgjörð mótsins og við hverju megi búast í samtali við útvarpsstöðina K100 og þegar á heildina er litið virðist heimsbyggðin horfa öðrum augum til komandi móts en fyrri sambærilegra móta sem iðulega hafa fyrst og fremst snúist um það sem fram fer á mótinu sjálfu.

Nú er öldin hins vegar önnur

Fréttastofan AFP hefur farið ítarlega ofan í saumana á örlögum fimm viðmælenda. Í formála sínum getur AFP þess að hundruð þúsunda verkamanna hafi flutt til Katar síðustu ár, flestir til að vinna við gríðarmiklar byggingarframkvæmdir og uppbyggingu innviða fyrir heimsmeistaramótið.

Hafi þeim verið lofað tekjum sem þá aldrei hefði dreymt um og virðast einhverjir hafa tekið mark á, innflytjendur eru um 90 prósent 2,8 milljóna íbúa Katars. Hafi loforðin verið efnd seint og illa, banaslys, alvarlegt líkamstjón og ógreidd laun hafi verið mun daglegra brauð verkamanna frá Indlandi, Filippseyjum og Afríku en gull og grænir skógar.

Al-Shamal SC-leikvangurinn norður af Doha er glæsilegur. Verkamenn voru gjörnýttir …
Al-Shamal SC-leikvangurinn norður af Doha er glæsilegur. Verkamenn voru gjörnýttir til að skapa umgjörð sem augu heimsins hvíla á næsta mánuðinn. AFP/Ina Fassbender

Yfirvöld í Katar hafa þó tekið við sér upp á síðkastið, sett strangari reglur um öryggismál og greitt hundruð milljóna dala í bætur fyrir vinnuslys og tekjutap. Mannréttindasamtök láta hins vegar í veðri vaka að breytingarnar séu lítilfjörlegar og komi einfaldlega of seint.

Ræddi AFP við verkamenn frá Indlandi, Bangladesh og Filippseyjum og fjölskyldur þeirra. Þær frásagnir fara hér á eftir.

Sonurinn sem missti föður sinn

Sravan Kalladi og Ramesh faðir hans störfuðu hjá sama verktakanum sem annaðist vegagerð í nágrenni leikvangsins. Aðeins annar þeirra feðga sneri þó aftur til Indlands að starfi loknu. Eftir vinnudaga sem hófust klukkan þrjú að nóttu og stóðu í tæpan sólarhring, til klukkan ellefu að kvöldi, gaf hjarta föðurins sig þegar hann var aðeins fimmtugur að aldri. Hann fékk verk fyrir brjóstið, hneig niður og var látinn.

„Við komum honum á sjúkrahús, ég bað læknana að reyna allt til að lífga hann við,“ segir tæplega þrítugur sonurinn. Hann lýsir starfsaðstæðunum sem hreinni skelfinu, unnið nánast allan sólarhringinn og varla greitt fyrir yfirvinnu. Átta saman bjuggu verkamennirnir í einu herbergi þar sem aðeins voru sæti fyrir fjóra.

Stuðningsmaður Brasilíu glaðbeittur fyrir mótið.
Stuðningsmaður Brasilíu glaðbeittur fyrir mótið. AFP/Philip Fong

„Við unnum í öllu veðri og maturinn var ekki góður,“ segir Kalladi af því sem átti að verða kveikjan að betra lífi feðganna. Hann flutti lík föður síns heim til Telangana á Indlandi og sneri aldrei aftur til Katar. Verktakinn greiddi eins mánaðar laun í skaðabætur fyrir líf föður hans og hálfbyggt hús fjölskyldunnar stendur nú sem minnisvarði um brostna drauma.

„Fyrirtækið á okkur á meðan við lifum en ekki eftir að við deyjum. Við treystum þeim og þess vegna yfirgáfum við heimili okkar og fórum að starfa hjá þeim. Þeir brugðust okkur,“ segir Kalladi.

Skuldarinn

Aupon Mir heitir maður frá Bangladesh sem hlóð gljáandi marmaranum á veggi Khalifa-leikvangsins þar sem ævintýrið mikla fer fram. Við það starfaði hann í fjögur ár áður en hann sneri heim slyppur og snauður. Hann var svikinn um stærstan hluta launa sinna.

„Þetta er glæsilegur leikvangur, hann er svo fallegur! En veistu hvað það sorglega er? Við sem lögðum blóð, svita og tár í þennan glæsileika fengum ekki greitt. Verkstjórinn okkar lét tímaskýrslurnar okkar hverfa, sveik okkur um allar launagreiðslur og lét sig svo hverfa,“ segir Mir en það orð þýðir einmitt friður á rússnesku, samanber geimstöðina góðkunnu.

Og Mir er friðsamur. Æðruleysi hans er algjört eftir að hann lagði fjögur ár ævi sinnar að veði til að veita fjölskyldu sinni betra líf. Hann greiddi 700.000 taka til að komast til Katar, sú upphæð nemur einni milljón og eitt þúsund og sjötíu krónum. Heim sneri hann með 25 ríal, upphæð sem nemur 1.144 krónum, eftir fjögurra ára vinnu.

Þjálfunaraðstaða Þjóðverja við Al-Shamal SC-leikvanginn.
Þjálfunaraðstaða Þjóðverja við Al-Shamal SC-leikvanginn. AFP/Ina Fassbender

„Það er framlag Katar til lífs míns. Mig dreymdi um að byggja mér betra hús og senda börnin mín í betri skóla. Nú sit ég uppi með skuldafjall og ekkert annað,“ segir þessi rúmlega þrítugi verkamaður sem vaknaði eldsnemma til að taka strætisvagn í vinnuna og vinna svo tíu klukkustundir í kæfandi hita. Þegar hann gat ekki greitt húsaleigu svaf hann á ströndinni.

Byggingarverkamaðurinn

Abu Yusuf, reyndar ekki rétt nafn þess viðmælanda, það vildi hann ekki nota, greiddi svipaða upphæð og Mir til að komast frá Bangladesh til Katar, 680.000 taka, tæpa milljón íslenskar. Hann starfaði sem byggingarverkamaður, bílstjóri og logsuðumaður.

Yusuf var nokkuð sáttur við sitt, fékk 700 dali í mánaðarlaun, sléttar 100.000 krónur. „Margir í Katar hjálpuðu mér, þar er gott fólk,“ segir hann og er ánægður með dvölina þrátt fyrir að einn vinnuveitandi hafi stolið öllum laununum hans.

Hann er nú snúinn aftur til bláfátækrar móður sinnar í Sadarpur í Bangladesh, er að byggja þar tvílyft hús og búinn að kaupa sér nýtt vélhjól. Hann dreymir um að fá að horfa á leikinn sem leikinn verður í Al-Bayt-leikvanginum þar sem hann starfaði, harður stuðningsmaður Argentínu. „Ég var stoltur af að starfa við leikvanginn,“ segir Yusuf.

Blindi maðurinn

Babu Sheikh, sem einnig er frá Bangladesh, vann í byggingarvinnu skammt frá Doha. Einn daginn féll hann fjóra metra og höfuðkúpubrotnaði. Hann lá í dauðadái á sjúkrahúsi í fjóra mánuði og vaknaði blindur.

„Ég sá ekkert þegar ég komst til meðvitundar. Ég spurði bróður minn hvort hér væri myrkur en hann sagði mér að skjannabjart væri. Ég trúði ekki að ég væri orðinn blindur,“ segir Sheikh, „ég veit ekkert hvernig þessir fjórir mánuðir liðu.“

Íranski markvörðurinn Alireza Beiranvand til hægri og miðvörðurinn Alireza Jahanbakhsh …
Íranski markvörðurinn Alireza Beiranvand til hægri og miðvörðurinn Alireza Jahanbakhsh á blaðamannafundi í dag. AFP/Fadel Senna

Hann situr nú þögull í garðinum við heimili sitt. Suma daga leiðir sonur hans hann á tehúsið í hverfinu þeirra þar sem hann hittir æskuvini þeirra og ræðir horfna daga við þá. Því sannarlega eru dagar Sheikhs að vissu leyti horfnir, hann tapaði sjóninni.

„Ég vil ekki lifa svona. Ég vil vinna. Ég sef ekki um nætur af áhyggjum af framtíð fjölskyldunnar, konu minnar og sonar. Mig langar bara að fá sjónina á ný. Ég vil geta séð son minn, hann er fimm ára og fæddist þegar ég var í Katar. Ég hef aldrei séð hann,“ segir Sheikh. „Líkist hann mér? Það fæ ég aldrei að sjá.“

Hungraður með heimþrá

„Við fengum nóg að borða,“ segir Jovanie Cario, byggingarverkamaður frá Filippseyjum. Það var þó ekki í vinnunni heldur í katörsku fangelsi. Cario varði sex árum í Katar. Allt gekk þokkalega þar til vinnuveitandi hans hætti að greiða honum laun þegar hann varð gjaldþrota árið 2018.

Þá lét Cario einfaldlega handtaka sig, vitandi að hann fengi nóg að borða í fangelsinu. Það mun vera algengt meðal landa hans sem lenda í kröggum í Katar, þá sýna þeir lögreglunni einfaldlega útrunnin ferðaskilríki sem nægir til handtöku og fangelsisvistar í eina nótt. Þar er nógur matur og svo mætti Cario í vinnuna þegar honum var sleppt út að morgni.

„Svo mætti maður með fullan maga í vinnuna,“ segir Filippseyingurinn sem starfað hefur í Katar frá 2012 og fékk laun fyrstu sex árin en hann starfaði við glerísetningar á Lusail-leikvanginum sem tekur 80.000 manns í sæti. Þar fer úrslitaleikurinn fram 18. desember.

Hann fékk meira greitt í Katar til að byrja með en sem sölumaður hjá Nestlé í heimalandinu. Stundum komu þó engin laun og þá voru peningar teknir að láni hjá ættingjum eða okurlánurum. Loks hættu launin alveg að koma en Cario borðaði þá bara í fangelsinu og vann áfram.

Það gekk þó ekki til lengdar og fékk hann að lokum styrk frá vinnumálaráðuneytinu í Katar sem dugði honum fyrir flugmiða heim enda var hann kominn með heimþrá. Árin sem hann starfaði í Katar sá hann börnin sín aðeins tvisvar. „Líkamann langar heim en vasinn er ekki nógu djúpur,“ segir Jovanie Cario, fimmti og síðasti viðmælandi AFP um líf og störf í Katar sem nú heldur heimsmeistarakeppni í skugga mannréttindabrota, svika og dauða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert