Dóttirin fylgdist með tilraunaskoti

Ríkisfjölmiðlar í Norður-Kóreu hafa aldrei minnst á börn leiðtogans áður.
Ríkisfjölmiðlar í Norður-Kóreu hafa aldrei minnst á börn leiðtogans áður. AFP/KCNA

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, var viðstaddur þegar nýjasta flugskeyti landsins var skotið á loft í gær, ásamt dóttur sinni. Sérfræðingar hafa kallað það „skrímslaflugskeyti“, að því er kóreska fréttastofan KCNA greinir frá.

Ríkisfjölmiðlar í Norður-Kóreu hafa aldrei minnst á börn leiðtogans áður og var þetta því fyrsta opinbera staðfestingin þar í landi á því að hann ætti dóttur.

„Við höfum séð með eigin augum fjórðu kynslóð Kim-fjölskyldunnar,“ sagði Soo Kim, fyrrverandi CIA-sérfræðingur, við AFP-fréttastofuna.

Sérfræðingar hafa kallað flugskeytið „skrímslaflugskeyti“.
Sérfræðingar hafa kallað flugskeytið „skrímslaflugskeyti“. AFP/KCNA

Leiðtoginn lýsti því yfir að hann myndi svara kjarnorkuógnum Bandaríkjanna með eigin kjarnorkuvopnum.

Frá því að Kim lýsti Norður-Kóreu sem „óafturkræfu kjarnorkuríki“ í september hafa Bandaríkin aukið svæðisbundið öryggissamstarf.

Norður-Kórea hefur skotið fjölmörgum flugskeytum á loft á undanförnum vikum í tilkraunaskyni og greindi öryggisráð Sameinuðu þjóðanna frá því í morgun að til stæði að ræða málefni Norður-Kóreu á fundi á mánudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert