ESB tilbúið að ganga út úr viðræðum um hamfarasjóð

Sameh Shoukry, utanríkisráðherra Egyptalands, á loftslagsráðstefnunni.
Sameh Shoukry, utanríkisráðherra Egyptalands, á loftslagsráðstefnunni. AFP/Mohammed Abed

Evrópusambandið hafnaði í morgun tillögu Egypta á COP27-loftslagsráðstefnunni vegna metnaðarleysis varðandi það að draga úr losun. Sagði sambandið að enginn samningur væri betri en slæmur. 

Ráðstefnan hefur staðið yfir í Egyptalandi frá 6. nóvember. Henni átti að ljúka í gær en var framlengd um einn dag eftir tillögu ESB um að setja upp loftslagshamfarasjóð gegn því að þróunarlöndin dragi meira úr losun.

Varaforsetinn áhyggjufullur

Eftir að samningaviðræður drógust yfir nóttina hafnaði ESB algjörlega drögum að skjali frá Egyptalandi.

Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði að sambandið væri tilbúið að ganga alfarið út úr viðræðunum. Hann sagðist hafa áhyggjur af því hvaða stefnu samningaviðræðurnar tóku á einni nóttu.

ESB vill að haldið verði í markmiðið um að takmarka hlýnun jarðar við 1,5 gráður. Timmermans varaði við því að ef ekki væri nóg gert til að draga úr losun og halda markmiðinu á lífi væri engin fjárhæð á jörðu sem gæti tekist á við ógæfuna sem yrði vegna náttúruhamfara.

Shoukry varði tillöguna

„Við erum ekki hér til að framleiða pappíra heldur til að halda 1,5 markinu á lífi,“ sagði Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands.

Sameh Shoukry, utanríkisráðherra Egyptalands, sagðist enn vera vongóður um tímamótaskref og varði tillögu sína.

„Mikill meirihluti fulltrúa benti mér á að þeir teldu textann vera yfirvegaðan og að hann feli í sér hugsanleg tímamót sem getur leitt til samstöðu,“ sagði Shoukry.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert