„Ég vissi að röðin var komin að okkur“

Lögreglumenn að störfum hjá Club Q.
Lögreglumenn að störfum hjá Club Q. AFP/Jason Connolly

Barþjónninn Michael Anderson fór í felur á hinsegin-næturklúbbnum Club Q í Colorado Springs í Bandaríkjunum þegar ungur byssumaður hóf þar skothríð á vini barþjónsins og samstarfsfólk.

„Mér fannst ég vera mjög einn, virkilega einn og hræddur,“ sagði Anderson.

„Ég var ekki með símann á mér. Ég var hræddur um að ég gæti ekki einu sinni kvatt mömmu mína.“

Minningarathöfn var haldin skammt frá næturklúbbnum í gærkvöldi.
Minningarathöfn var haldin skammt frá næturklúbbnum í gærkvöldi. AFP/Scott OlsonSCOTT OLSON

Nokkrum augnablikum fyrr hafði hann verið að skenkja í glös á næturklúbbnum, sem er rótgróinn hinsegin-staður í borginni, sem er staðsett við rætur Klettafjalla.

Dragsýning hafði verið í gangi í tilefni af sérstökum transdegi og tónlistin var á fullu þegar Anderson tók að heyra skringileg hljóð.

„Ég horfði upp og sá skugga hávaxinnar manneskju halda á riffli. Ég sá byssuna vel...og síðan hélt skothríðin áfram...hvert skothylkið á fætur öðru. Þetta var hræðilegt,“ sagði hann við AFP.

„Ég beygði mig niður á bak við barinn. Glerið flaug út um allt í kringum mig, eins og byssukúlur væru að fara í gegnum flöskur eða hvað það nú var sem var þarna fyrir aftan.“

Af ótta við að verða skotinn skreið Anderson í burtu frá barnum yfir í meira öryggi skammt frá þar sem hann beið átekta ásamt öðrum starfsmanni. 

Frá minningarathöfn í Colorado Springs í gær.
Frá minningarathöfn í Colorado Springs í gær. AFP/Scott Olson

Inni á staðnum skaut byssumaðurinn, hinn 22 ára Anderson Lee Aldrich, stanslaust á gesti staðarins, en á endanum myrti hann að minnsta kosti fimm og særði 18, suma alvarlega.

„Ég sá byssu koma inn um dyrnar. Það sást í byssuhlaupið,“ sagði barþjónninn.

„Á því augnabliki var ég hræddastur. Vegna þess að ég vissi að röðin var komin að okkur. Hann ætlaði að finna okkur.“

„Björguðu lífi mínu“

Næst gerðist nokkuð sem Anderson mun ævinlega þakka fyrir, en að sögn lögreglunnar stukku tveir gestir staðarins á byssumanninn og héldu honum föstum á gólfinu.

„Það voru mjög hugrakkar manneskjur sem lömdu hann og spörkuðu í hann og komu í veg fyrir að hann ylli meiri skaða,“ sagði hann.

„Ég veit ekki hverjir gerðu þetta. En ég myndi vilja hitta þá vegna þess að ég er mjög þakklátur. Þeir björguðu lífi mínu í gærkvöldi.“

Hinsegin-fáninn á lofti í Colorado Springs.
Hinsegin-fáninn á lofti í Colorado Springs. AFP/Jason Connolly

Skotárásir eru tíðar í Bandaríkjunum, en að sögn Anderson og annarra sem eru hluti af hinsegin-samfélaginu í Colorado Springs, virkaði ógnin af völdum slíkra árása fjarlæg.

„Samfélagið hérna er samrýnt. Hérna þekkja allir alla. Við erum fjölskylda, þar sem allir koma saman og hittast.“

„Þegar ég byrjaði að vinna á Club Q...sagði rekstrarstjórinn við mig: Þú ert hluti af fjölskyldunni okkar. Við erum til staðar fyrir þig.“

Hann bætti við: „Við bjuggumst aldrei við því að þetta gæti gerst hérna, aldrei í Colorado Springs, aldrei í Club Q. Kannski er þetta nokkuð sem við segjum okkur sjálfum til að geta farið þarna út og fundist við vera örugg.“

Fórnarlambanna minnst í gær.
Fórnarlambanna minnst í gær. AFP/Scott Olson

Andersen kvaðst jafnframt vona að byssumaðurinn dúsi í fangelsi það sem eftir er ævinnar og tók sömuleiðis fram að Bandaríkin þurfi að vera vingjarnlegra land.

Innan við tveimur vikum eftir þingkosningar í Bandaríkjunum þar sem þó nokkrir frambjóðendur töluðu gegn hinsegin-fólki í von um fleiri atkvæði, er ljóst að stjórnmálamenn þurfa að endurhugsa stefnu sína, sagði hann.

„Fólkið sem er að kasta þessu fram heldur kannski að það skaði engan og að þetta sé bara hluti af menningarstríði þeirra, en þetta menningarstríð þeirra hefur alvöru afleiðingar. Ég hef séð það frá fyrstu hendi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert