Serbar og Kósovóar komast að samkomulagi

Frá borginni Mitrovica í Norður-Kósovó þar sem fjöldi Serba býr. …
Frá borginni Mitrovica í Norður-Kósovó þar sem fjöldi Serba býr. Margir þeirra neita að viður­kenna sjálf­stæði rík­is­ins. AFP

Yfirvöld í Kósovó og Serbíu hafa komist að samkomulagi um aðgerðir til að draga úr deilum er varðar serbneskar bílnúmeraplötur. Mikil spenna hefur ríkt á milli nágrannaríkjanna vegna málsins. 

Josep Bor­rell, ut­an­rík­is­mála­stjóri Evr­ópu­sam­bandss­ins, tístaði: „Það er komið samkomulag!“. Hann bætti við að bæði ríkin ætli að leggja sig fram í að ná fram sáttum. 

Fjór­tán ár eru síðan Kó­sovó fékk sjálf­stæði frá Serbíu og búa um 50 þúsund Ser­bar í Norður-Kó­sovó sem enn nota serbnesk bíl­núm­er og önn­ur serbnesk gögn. Neita þeir að viður­kenna sjálf­stæði rík­is­ins. 

BBC greinir frá því að yfirvöld í Kósovó hótuðu að sekta ökumenn með serbnesk bílnúmer frá og með deginum í dag. Sektin átti að hljóða upp á 150 evrur, eða um 22 þúsund krónur. 

Borell greindi frá því að yfirvöld í Serbíu myndu hætta að gefa út númeraplötur til ríkisborgara Kósovó og yfirvöld í Kósovó myndu hætta við að krefjast þess að ökutæki með serbnesk bílnúmer yrðu endurskráð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert