Skellt í lás „iPhone-borg“

Skjáskot úr myndskeiði sem sýnir átökin sem brutust út í …
Skjáskot úr myndskeiði sem sýnir átökin sem brutust út í borginni í gær. AFP

Kínversk stjórnvöld hafa skellt öllu í lás í borginni Zhengzhou í Kína, sem hefur verið kölluð „iPhone-borgin“ og sett útgöngubann á sex milljónir íbúa, en þar brutust út átök í risaverksmiðju sem framleiðir iPhone-snjalltæki í kjölfar mótmæla vegna harðra Covid-reglna og aðbúnaðar starfsfólks. 

Nokkur hundruð starfsmenn verksmiðjunnar söfnuðust saman á götum úti í gær þar sem þeir lentu í átökunum við óeirðalögreglumenn. Það er sjaldgæft að slík átök eigi sér stað fyrir allra augum í Kína. 

Í kjölfar málsins hafa yfirvöld í Zhengzhou fyrirskipað að allir íbúar þurfi að láta skima sig vegna Covid auk þess sem útgöngubann hefur verið sett á í nokkrum héruðum frá og með deginum í dag. 

Íbúar í miðborg Zhengzhou mega ekki yfirgefa svæðið nema þeir geti framvísað neikvæðu Covid-prófi og leyfi frá svæðisstjórninni. Fólk er hvatt til að  halda sig heima nema annað sé nauðsynlegt. 

Um helmingur allra iPhone-snjalltækja heims eru framleidd í risaverksmiðju Foxconn …
Um helmingur allra iPhone-snjalltækja heims eru framleidd í risaverksmiðju Foxconn í borginni Zhengzhou í Kína. AFP

Ráðstafanirnar hafa áhrif á um sex milljón manns en tekur ekki til iPhone-verksmiðjunnar sjálfrar, sem hefur verið lýst sem borg inni í borginni, þar sem starfsmenn hafa þegar þurft að þola harðar sóttvarnaráðstafanir undanfarnar vikur. 

Einn starfsmaður sagði í samtali við AFP-fréttaveituna að mótmælin hafi brotist út vegna deilu um bónusa sem átti að greiða starfsfólki, en ekkert varð úr. Taívanska tæknifyrirtækið Foxconn rekur verksmiðjuna. 

Þá eru margir starfsmenn ósáttir við óreiðukenndan aðbúnað verkafólks á staðnum.

Talsmenn Foxconn sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem beðist er afsökunar, en þeir segja að tæknileg vandamál hafi komið upp við launagreiðslur. Kveðst fyrirtækið skilja áhyggjur starfsfólksins. 

Þá hyggst það gera sitt besta til að leysa málin og verða við skynsömum kröfum starfsfólksins. 

Talsmaður Apple sagði í samtali við AFP að fulltrúar fyrirtækisins væru á staðnum til að meta ástandið. Apple kveðst vinna náið með Foxconn að því að tryggja það að kröfum starfsmanna sé mætt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert