Krossfaraklæddir í Katar

Öryggisverðir deila við „krossfara“ sem að lokum er vísað á …
Öryggisverðir deila við „krossfara“ sem að lokum er vísað á brott. Ljósmyndir/Twitter

Alþjóðaknattspyrnusambandið hótar breskum stuðningsmönnum útskúfun frá leiknum gegn Bandaríkjunum í Katar í kvöld og síðari leikjum heimsmeistaramótsins klæði þeir sig upp í gervi krossfara sem er illa þokkað í múslimaríkjum, en þeir réðust inn í lönd fyrir botni Miðjarðarhafs árið 1097 með það markmið að frelsa Jerúsalem.

Breskir stuðningsmenn hafa um árabil mætt á leiki í ýmsum búningum, skrýddir leikfangahjálmum og sveiflandi plastsverðum án þess að sýna tengingar við krossfarana en nú ber svo við að hópur þeirra birtist í slíkum klæðum við leikvanginn í dag og höfðu öryggisverðir þegar afskipti af gestunum. Sami hópur sótti leik Englands og Írans á mánudag svo vitað var af þessum gestum.

Mannréttindamál yfirgnæfi nær boltann

Enn fremur heyrðust háværar gagnrýnisraddir á samfélagsmiðlum sem hvöttu Alþjóðaknattspyrnusambandið til að taka á málinu. „Þessir búningar í samhengi við Arabalönd eða Mið-Austurlönd geta talist móðgandi sem er ástæðan fyrir því að þeim er meinaður aðgangur að leikvöngum,“ segir ónafngreindur starfsmaður sambandsins við Reuters-fréttastofuna.

Mál tengd mannréttindum og menningu hafa risið svo hátt í aðdraganda mótsins að við sjálft liggur að keppnin sjálf falli í skuggann, skrifar Reuters.

Breti í gervi krossfara ræðir við sjónvarpsstöðina TalkTV um þessa …
Breti í gervi krossfara ræðir við sjónvarpsstöðina TalkTV um þessa mislukkuðu krossferð þeirra félaga. Skjáskot/Talk TV

Velskum áhorfendum var gert að taka niður regnbogalitaða hatta, vísun í réttindabaráttu hinsegin fólks, á leik Wales og Bandaríkjanna fyrr í vikunni en samkynhneigð er bönnuð með lögum í Katar. Velsk knattspyrnuyfirvöld greindu frá því í gær að Alþjóðaknattspyrnusambandið hefði sagt að áhorfendurnir mættu fara með hattana inn á leikvanginn.

Þá féllu fyrirliðar knattspyrnuliða Englands, Wales, Belgíu, Hollands, Sviss, Þýskalands og Danmerkur frá þeirri fyrirætlun sinni að bera svokölluð „OneLove“-armbönd til stuðnings samkynhneigðum meðan á leikjum stæði og var það að áeggjan Alþjóðaknattspyrnusambandsins.

Reuters

Wales Online

NBC News

mbl.is