Sextán ára skaut þrjá til bana

Aðstandendur fórnarlamba féllust í faðma.
Aðstandendur fórnarlamba féllust í faðma. AFP/Kadija Fernandes

Sextán ára drengur varð þremur að bana í skotárás í tveimur mismunandi skólum í borginni Aracruz í suðausturhluta Brasilíu í gær. Ellefu til viðbótar eru særðir, sumir í lífshættu.

Lögregla hefur handtekið drenginn en hann var áður nemandi í öðrum skólanum. Í júní á þessu var hann færður yfir í annan skóla að beiðni fjölskyldunnar sn samkvæmt upplýsingum lögreglu var drengurinn að glíma við geðrænan vanda.

Að minnsta kosti þrír eru látnir.
Að minnsta kosti þrír eru látnir. AFP/Kadija Fernandes

Drengurinn er sagður hafa skotið á hóp kennara í fyrrum skólanum sínum, með þeim afleiðingum að tveir létust og níu særðust. Í kjölfarið hafi hann yfirgefið vettvang og var förinni heitið í einkaskóla í nágrenninu þar sem hann myrti stúlku og særði tvo til viðbótar.

Upptökur úr eftirlitsmyndavélum sýna árásarmanninn klæddan í felulitum hlaupa um ganga skólans. Hann var vopnaður tveimur skammbyssum en þær voru báðar skráðar á föður drengsins sem er lögreglumaður.

Var með hakakross

Renato Casagrande, ríkisstjóri Espirito Santo, segir augljóst að drengurinn hafi undirbúið árásina vel og telur lögreglan að skipulagningin hafi staðið yfir í tvö ár.

Rannsakendur skoða nú hvort að árásarmaðurinn hafi verið tengdur öfgasamtökum en á klæðnaði hans mátti m.a. sjá hakakrossinn.

Skólaskotárásir eru ekki algengar í Brasilíu en hafa þó verið að færast í aukana undanfarin ár. 

Renato Casagrande, ríkisstjóri Espirito Santo.
Renato Casagrande, ríkisstjóri Espirito Santo. AFP/Espirito Santo Security Secretary Press Office
mbl.is