Lýsa yfir neyðarástandi eftir aurskriðuna

Stjórnvöld á Ítalíu lýstu í dag yfir neyðarástandi eftir að aurskriða féll á eyjunni Ischia í gær. Claudio Palomba, héraðsstjóri Napólí, sagði að tala látinna væri nú sjö og fimm væri enn saknað. 

Aurskriða féll á smábæinn Casamicciola Terme á laugardagsmorgun og hrifsaði með sér eitt hús og fjölda ökutækja út í hafið. 

Á neyðarfundi ítölsku ríkisstjórnarinnar var samþykkt að veita tveimur milljónum evra í aðstoð til Ischia.

Um 200 björgunarsveitarmenn leita nú í rústunum í bænum auk þess sem mörg hundruð sjálfboðaliða hafa lagt leitarmönnum lið yfir helgina. Framan af erfiðaði veðrið leitina sem og flutning björgunarsveita til eyjunnar. 

Casamicciola Terme er vinsæll sumardvalarstaður. Bærinn er á norðurhluta eyjunnar. Þar búa um átta þúsund manns.

mbl.is