Norski sendiherrann kallaður á teppið í Moskvu

Norski sendiherrann var kallaður á fund rússneska utanríkisráðuneytisins.
Norski sendiherrann var kallaður á fund rússneska utanríkisráðuneytisins. AFP/Alexander Nemenov

Yfirvöld í Moskvu kölluðu í dag norska sendiherrann á fund í kjölfar þess að fjöldi Rússa var handtekinn í Noregi fyrir að fljúga drón­um á norsku yf­ir­ráðasvæði.

Samkvæmt upplýsingum frá rússneska utanríkisráðuneytinu var Robert Kvile, sendiherra Noregs í Rússlandi, sagt að Norðmenn yrðu að hætta að ofsækja rússneska ríkisborgara á grundvelli þjóðernis þeirra.

Rússneskur karlmaður var í síðustu viku dæmdur í 90 daga fangelsi fyrir að hafa flogið dróna inn á norskt yfirráðasvæði og þar með brotið í bága við bann sem tók gildi í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Aukinn öryggisviðbúnaður hefur verið í kringum mikilvæga innviði í Noregi síðustu mánuði. 

Pólitískir dómar

Um tugur Rússa hefur verið handtekinn í Noregi á síðustu vikum, annars vegar fyrir að brjóta gegn banninu um notkun dróna á yfirráðasvæði Noregs og hins vegar fyrir að hafa myndað á svæðum sem talin eru „viðkvæm“.

Utanríkisráðuneyti Rússlands segir dómana pólitíska og að ekki hafi verið gætt að sanngirni. 

mbl.is