Kristnir í minnihluta í fyrsta sinn

Trafalgar-torg í London. Kristnir eru nú í minnihluta í Englandi …
Trafalgar-torg í London. Kristnir eru nú í minnihluta í Englandi og Wales í fyrsta sinn síðan manntöl hófust þar. AFP/Justin Tallis

Í fyrsta sinn síðan manntöl hófust á Englandi játar nú innan við helmingur íbúa Englands og Wales kristna trú, eða 46,2 prósent, sem er niðurstaða manntals ársins 2021. Síðasta manntal þar á undan var tekið árið 2011 og var hlutfall kristinna þá 59,3 prósent.

Um leið hækkar hlutfall þeirra sem játa enga trú úr 25 prósentum í 37,2 prósent milli manntala og hlutfall múhameðstrúenda hækkaði úr 4,9 í 6,5 prósent.

Spurning bresku hagstofunnar ONS í manntalinu var „Hvaða trú játar þú?“ og bendir Linda Woodhead, prófessor í trúarbragðafræðum við King‘s College í London, á að þótt fólk merki við svarmöguleikann „Enga“ geti það engu að síður falið í sér trúarleg stef.

„Sumir eru trúleysingjar, aðrir aðhyllast efahyggju [e. agnostic], þeir segja bara „Ég veit það ekki,“ og einhverjir eru andatrúar og stunda þá iðju sem því fylgir,“ segir prófessorinn við breska ríkisútvarpið BBC.

81,7 prósent kalla sig hvít

Í London ríkir mest trúarleg fjölbreytni á öllu Englandi, þar hafa 25,3 prósent aðra guði en kristinna manna. Minnst er fjölbreytnin hins vegar á Suðvestur-Englandi þar sem 3,2 prósent völdu aðra trú en kristni í könnun manntalsins.

Þegar spurt var út í kynþátt reyndust 81,7 prósent íbúa Englands og Wales kalla sig hvít, en það hlutfall var 86,0 prósent áratug áður. Í kjölfarið fylgdu asískir sem voru 9,3 prósent og fjölgar mest allra kynþátta milli manntala, voru 7,5 prósent síðast. Þeir sem kölluðu sig blökkumenn, karabíska og afríska voru 2,5 prósent, fjölgun úr 1,8 prósentum.

Reyndust hvítir vera orðnir minnihlutahópur í borgunum Birmingham, Leicester og Luton auk 14 annarra svæða Englands. Rúmlega 24 milljónir heimila Englands og Wales tóku þátt í manntalinu.

BBC

Sky News

The National

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert