„Óbermi eru ekki ósigrandi“

Thomas James yfirbugaði árásarmanninn á Club Q við þriðja mann …
Thomas James yfirbugaði árásarmanninn á Club Q við þriðja mann eftir að fimm manns lágu í valnum laugardaginn 19. nóvember. Ljósmynd/Bandaríski sjóherinn

Thomas James, bandarískur hermaður sem átti þátt í að stöðva Anderson Lee Aldrich, árásarmanninn á Club Q í Colorado Springs á laugardaginn fyrir rúmri viku, segist einfaldlega hafa viljað bjarga þeirri fjölskyldu sem hann fann, en hermaðurinn safnar nú kröftum á sjúkrahúsi eftir þrekraunina.

James ýtti riffli Aldrich út fyrir seilingarfjarlægð árásarmannsins á meðan annar gestur staðarins, fyrrverandi hermaðurinn Richard Fierro, lamdi Aldrich með hans eigin skammbyssu og dansari úr skemmtiatriði á staðnum traðkaði á honum með háhælaskó. Lágu þá fimm manns í valnum eftir skothríðina auk þess sem 18 voru sárir.

Hópur fólks tók sér stöðu fyrir utan þinghúsið í Denver …
Hópur fólks tók sér stöðu fyrir utan þinghúsið í Denver í Colorado 23. nóvember og kveikti þar á kertum auk þess að stilla upp spjöldum með nöfnum þeirra sem létust á Club Q. AFP/Chet Strange

„Ef ég mætti ráða bjargaði ég öllum frá glórulausum hatursárásum heimsins, en ég er bara einn maður,“ sagði James í yfirlýsingu eftir árásina. „Til allra heilla erum við fjölskylda og í fjölskyldum gætir fólk hvert annars,“ sagði hann enn fremur og bætti því við að hinsegin samfélagið hefði farið um langan veg í baráttu sinni síðan Stonewall var og hét, hinsegin staður í New York sem varð miðpunktur réttindabaráttu sjöunda og áttunda áratugarins.

„Óbermi eru ekki ósigrandi,“ (e. bullies aren‘t invincible) segir James og kveður hug sinn hjá þeim sem eiga um sárt að binda eftir árásina. „Verið hugrökk segi ég við æskufólk. Fjölskylda ykkar er þarna úti. Þið eruð elskuð og virt. Svo þegar þið komið út úr skápnum, komið út með látum,“ segir hermaðurinn.

Anderson Lee Aldrich var handtekinn eftir að James og félagar …
Anderson Lee Aldrich var handtekinn eftir að James og félagar höfðu skellt honum og þjarmað að honum. AFP/Lögreglan í Colorado

John Suthers, borgarstjóri Colorado Springs, hrósar þremenningunum sem yfirbuguðu árásarmanninn í hástert og segir framgöngu þeirra „ótrúlega hetjudáð“, þar hafi verið komið í veg fyrir að afleiðingar árásarinnar yrðu enn skelfilegri.

Aldrich er á sjúkrahúsi undir stífri gæslu og kom þar fyrir dómara gegnum fjarfundabúnað í síðustu viku. Var hann að sögn fjölmiðlamanna sem fylgdust með illa áttaður, með áverka á andliti og talandinn drafandi. Lögregluyfirvöld gera því skóna að Aldrich verði ákærður fyrir manndráp og hatursglæp.

CBS
Denver Post
CNN

mbl.is