Byggjast ráðherrafundir á aldri?

Jacinda Ardern og Sanna Marin á fundi sínum í Auckland …
Jacinda Ardern og Sanna Marin á fundi sínum í Auckland á Nýja-Sjálandi í dag. AFP/Diego Opatowski

Forsætisráðherrar Nýja-Sjálands og Finnlands, Jacinda Ardern og Sanna Marin, vísa því alfarið á bug að þær hafi efnt til fundar um þyngsli í heimshagkerfinu og óðaverðhækkanir vegna þess að þær séu á svipuðum aldri, en fréttamaður nýsjálensku útvarpsstöðvarinnar Newstalk ZB spurði út í þetta á blaðamannafundi.

Ardern velti því fyrir sér hvort karlkyns þjóðarleiðtogar hefðu fengið sambærilega spurningu, svo sem þeir Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, og John Key, fyrrverandi forsætisráðherra Nýja-Sjálands, sem áttu fund á sínum tíma og eru fæddir með nokkurra daga millibili árið 1961.

„Hlutfall karlmanna í stjórnmálum er auðvitað hærra, það er raunveruleiki dagsins. Það táknar ekki að þótt tvær konur hittist sé það eingöngu vegna kyns þeirra,“ hélt Ardern áfram og útskýrði tilgang fundar þeirra forsætisráðherranna sem snerist um ýmis efnahagsleg tækifæri sem Finnland og Nýja-Sjáland gætu nýtt sér í samstarfi.

Fyrsti finnski forsætisráðherra á Nýja-Sjálandi

„Það er okkar starf að sinna slíku, óháð kyni,“ sagði nýsjálenski ráðherrann enn fremur og finnska starfssystirin tók undir, sagði fundinn sprottinn af því að þær Ardern væru forsætisráðherrar sinna þjóða, en Marin er nú stödd á Nýja-Sjálandi í sinni fyrstu opinberu heimsókn og er auk þess fyrsti finnski forsætisráðherrann sem heimsækir landið.

Gestgjafinn Ardern sagði þá að þær Marin deildu „sterkri skuldbindingu“ gagnvart Úkraínu og stuðningi við þarlenda í kjölfar innrásar Rússa í febrúar. „Ég er líka með böggum hildar yfir ástandinu í Íran nú um stundir,“ sagði finnski forsætisráðherrann, „þar mótmæla kjarkaðar konur löggjöfinni og því öryggisleysi sem konur búa við í landinu. Þetta eru málefni sem við þurfum að taka á í sameiningu.“

BBC

mbl.is