Með 27 mannslíf á samviskunni

Harem Ahmed Abwbaker á von á ákæru fyrir að hafa …
Harem Ahmed Abwbaker á von á ákæru fyrir að hafa orðið 27 manns að bana auk þess að stuðla að ólöglegum innflutningi fólks. Ljósmynd/National Crime Agency

Harem Ahmed Abwbaker kom fyrir dóm í London í dag þar sem tekin var fyrir framsalskrafa franskra stjórnvalda á hendur honum, en Abwbaker er grunaður um að hafa orðið valdur að dauða 27 farenda sem drukknuðu þegar bátkæna þeirra sökk á Ermarsundi 24. nóvember í fyrra.

Lögreglan handtók Abwbaker í Cheltenham en auk ákæru fyrir dauða fólksins á hann einnig yfir höfði sér ákæru fyrir að stuðla að ólöglegum innflutningi fólks sem ætlunin var að smygla frá Frakklandi yfir til Bretlands. Þrjú börn voru meðal þeirra sem fórust.

„Eins og sundlaug“

Gerald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands, sagði að báturinn sem fólkið var í hefði verið „eins og sundlaug sem þú blæst upp í garðinum hjá þér“, en atvikið er eitt það mannskæðasta í sögu smygls á fólki yfir sundið, aðeins tveir farþegar af 29 komust lífs af, fjögur lík fundust aldrei.

Þáverandi forsætisráðherra, Boris Johnson, lýsti atvikinu sem skelfilegu, en Suella Braverman, núverandi innanríkisráðherra, segir hugsanir sínar vera hjá ástvinum hinna látnu og þakkar bresku löggæslustofnuninni National Crime Agency fyrir vinnu sem leiddi til handtöku Abwbaker í samvinnu við frönsk lögregluyfirvöld.

BBC

mbl.is