Líklega myrtur eftir að hafa fagnað tapi Írana

Stuðningsmenn Írans að horfa á leikinn á þriðjudag í höfuðborg …
Stuðningsmenn Írans að horfa á leikinn á þriðjudag í höfuðborg ríkisins, Teheran. AFP/Atta Kenare

Írönsk yfirvöld hafa hafið rannsókn á dauða manns sem var skotinn er hann var að fagna eftir leik Íran og Bandaríkjanna á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu, en síðarnefnda liðið bar sigur úr býtum.

Tap Írans á þriðjudaginn leiddi til þess að karlalandsliðið hefur lokið leik á mótinu.

Eftir að leiknum lauk var Mehran Samak skotinn til bana í borginni Bandar Anzali.

Tapi Írans fagnað

„Rannsókn er hafin og saksóknari á svæðinu leiðir hana,“ sagði í tilkynningu saksóknara í Gilan-héraði. 

Mannréttindasamtök utan Írans segja að Samak, sem var 27 ára gamall, hafi verið skotinn af öryggissveitum Írans eftir að Samak þeytti bílflautu sína á meðan tapi Írans var fagnað í borginni.

Tap landsliðs Írans vakti bæði gleði og hugarangur í ríkinu en þjóðin sundraðist eftir að íranska konan Mahsa Am­ini lést í haldi siðalög­reglu ríkisins 16. september. Dauði hennar hefur leitt til mikilla mótmæla sem enn standa. 

mbl.is