Ósakhæfur er hann myrti hjónin

Otta í Guðbrandsdal sem nú tilheyrir Innlandet-fylki. Otta-áin rennur gegnum …
Otta í Guðbrandsdal sem nú tilheyrir Innlandet-fylki. Otta-áin rennur gegnum byggðarlagið fyrir miðju. Ljósmynd/Wikipedia.org/Kjenshaugmyra

Maður á fimmtugsaldri, sem grunaður er um að hafa myrt hjónin Hermu og Odd Gjetsund, 83 og 88 ára, á heimili þeirra í Otta í Guðbrandsdal í Noregi 1. ágúst í sumar, er ekki talinn hafa verið ábyrgur gjörða sinna á verknaðarstundu.

Þetta kemur fram í bráðabirgðaskýrslu geðlæknisins Terje Tørrissen og sálfræðingsins Monicu Flermoen sem lögmaður lögreglu hefur nú fengið í hendur. „Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að grunaði hafi ekki verið í ástandi til að skilja verknað sinn þegar hann myrti fórnarlömbin. Lögregla mun því leggja það til við héraðssaksóknara að grunaði verði færður til gæslu á viðeigandi stofnun,“ segir Lars Rune Ringvik, lögmaður lögreglunnar í Innlandet-umdæminu, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Kemur ekki á óvart

Endanleg skýrsla geðlæknisins og sálfræðingsins verður lögð fram við aðalmeðferð málsins fyrir Héraðsdómi Vestre Innlandet, sem hefst í lok mars, en Anders Bjørnsen, verjandi grunaða, hefur áður greint fjölmiðlum frá því að skjólstæðingur hans eigi sér langa sögu í norsku geðheilbrigðiskerfi. „Niðurstaða skýrslunnar kemur mér ekki á óvart,“ segir verjandinn og vill ekki tjá sig frekar um skýrsluna. „Þá umræðu tökum við í héraðsdómi,“ segir hann.

Nágrannar Gjetsund-hjónanna voru slegnir óhug þegar þau voru myrt í ágúst og ekki dró úr þegar í ljós kom að grunaði var búsettur í sama fjölbýlishúsi og þau. Hann hafði verið til heimilis á Bredebygden-geðhjúkrunarheimilinu í Otta sem svo var lagt niður og honum þá útveguð íbúð í húsinu á vegum sveitarfélagsins en fram að því átti hann sér 25 ára sögu innan geðheilbrigðiskerfisins og fjölda innlagna.

„Þetta var þægilegt og rólegt fólk, þau voru orðin vel fullorðin og héldu sig mest heima síðustu árin,“ sagði Odd Båtstad, stjórnarformaður íbúðasamvinnufélagsins sem hjónin og grunaði bjuggu í. Eiginkonan var fædd í Austurríki en Odd Gjetsund var Norðmaður, sjómaður á eftirlaunum.

NRK

VG (frétt síðan í ágúst)

TV2 (gert að sæta geðrannsókn)

mbl.is