Reiðubúinn að ræða við Pútín

Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Joe Biden Bandaríkjaforseti á blaðamannafundinum í …
Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Joe Biden Bandaríkjaforseti á blaðamannafundinum í dag. AFP/Ludovic Marin

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Emmanuel Macron Frakklandsforseti funduðu í Hvíta húsinu í Bandaríkjunum í dag. Þeir hétu að halda áfram stuðningi við Úkraínu og að þrýsta á Vladimír Pútín Rússlandsforseta að semja um frið. 

„Við áréttum að Frakkland og Bandaríkin, ásamt öllum aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins og aðildarríkjum Evrópusambandsins og G7-ríkjunum, standa saman sterk gegn hrottalegu stríði Rússlands í Úkraínu,“ sagði Biden á blaðamannafundi. 

Þá sagði Biden að hann væri reiðubúinn til að hitta Pútín, en einungis ef hann er tilbúinn til að ljúka stríðinu. „Hann hefur ekki enn verið tilbúinn til þess.“

Neyða Úkraínumenn ekki í friðarviðræður

Macron hét auknum stuðningi við Úkraínumenn. Þá sagði hann að yfirvöld í Kænugarði yrðu ekki neydd til friðarviðræðna eða málamiðlana sem Úkraínumenn myndu ekki sætta sig við. 

Hann sagði að Volodimír Selenskí forseti Úkraínu væri reiðubúin að sækjast eftir friði.

„Okkar hlutverk er að vinna með honum.“

Forsetarnir ræddu saman í tæpar tvær klukkustundir en ásamt Úkraínustríðinu funduðu þeir um stöðuna í Kína og Íran, og fordæmdu mannréttindabrotin sem eiga sér stað í báðum ríkjunum.

mbl.is