Tuga saknað eftir aurskriðu

Skriðan hreif með sér fjölda bifreiða en mikið hefur rignt …
Skriðan hreif með sér fjölda bifreiða en mikið hefur rignt á svæðinu undanfarið og brasilíska veðurstofan boðar rigningu áfram í fjölda fylkja næstu daga. AFP/Slökkviliðið í Santa Catarina

Minnst tveir eru látnir og tuga saknað eftir að aurskriða féll á BR-376-hraðbrautina í borginni Guaratuba í Parana í Brasilíu á mánudagskvöld og hreif með sér tuttugu bifreiðar.

Sex manns hafa fundist á lífi í björgunaraðgerðum sem enn standa, þar á meðal borgarstjórinn í Guaratuba, Roberto Justus sem í myndskeiði á samfélagsmiðlum kvaðst vera á lífi fyrir „miskunn guðs“.

„Þetta var skelfilegt, fjallið hrundi ofan á okkur, það sópaði hverjum einasta bíl í burtu,“ sagði borgarstjóri enn fremur í myndskeiði sínu. Skriðan rauf hraðbrautina og sópaði meðal annars stórum flutningabifreiðum ofan í gil fyrir neðan.

Leita að 30 til 50

Á sjötta tug björgunarmanna voru við leit á vettvangi í gær og notuðust meðal annars við dróna við vinnuna en mikil rigning hamlaði störfum þeirra. „Það er erfitt að átta sig á því hve margir urðu fyrir skriðunni, í hverjum bíl geta verið á bilinu einn til fimm, við gefum okkur að við séum að leita að 30 til 50 manns,“ sagði Manoel Vasco í gær en hann stjórnar aðgerðum á staðnum.

Brasilíska veðurstofan INMET hefur gefið út viðvörun um mikið regn í mörgum fylkjum landsins næstu daga.

Reuters

mbl.is