Sprengja sprakk í ítölskum sendiráðsbíl

Forsætisráðherra Ítalíu Giorgia Meloni og leiðtogi hægri manna sagðist hafa …
Forsætisráðherra Ítalíu Giorgia Meloni og leiðtogi hægri manna sagðist hafa áhyggjur af sprengjutilræðum við ítalska sendiráðið í Aþenu í morgun. AFP/Filippo Monteforte

Tvær tilraunir til sprengjuárása beindust að bílum í eigu ítalska sendiráðsins í Aþenu í Grikklandi í nótt að sögn grísku lögreglunnar. Önnur þeirra sprakk en  olli engum meiðslum. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásunum og rannsakar lögreglan málið.

Heimagerð sprengja sprakk um klukkan 4 í nótt að staðartíma og skemmdi bifreið sem var lagt við heimili sendiráðsfulltrúa í úthverfi Aþenu að sögn lögreglu.

Hin sprengjan, sem komið var fyrir nálægt annarri sendiferðabifreið sprakk ekki.

Líklega verk anarkista

Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, lýsti yfir miklum áhyggjum af því sem hún kallaði „árásir... sem líklega mætti rekja til anarkista“.

Meloni, leiðtogi hægri manna á Ítalíu sendi fyrsta ráðgjafa ítalska sendiráðsins í Aþenu, Susanna Schlein, stuðning sinn og ítalskra stjórnvalda og lýsti yfir áhyggjum sínum af verknaðinum.

Meloni bætti við að hún fylgdist grannt með málinu og væri í samskiptum við Antonio Tajani, utanríkisráðherra Ítalíu, sem er staddur í Aþenu vegna funda.

Fordæma árásina

Gríska utanríkisráðuneytið fordæmdi árásina harðlega og sagði slík óásættanleg verk myndu ekki raska góðum samskiptum og tengslum og langvarandi vináttu Grikklands og vináttuþjóðarinnar, Ítalíu“.

Talsvert hefur verið um að heimagerðar sprengjur séu notaðar gegn pólitískum aðilum í Grikklandi, en þær hafa sjaldnast valdið miklum skaða.

mbl.is