Vilja banna hóstamixtúru vegna ofnæmisviðbragða

Pholcodine er búið til úr ópíóðum og hefur verið notað …
Pholcodine er búið til úr ópíóðum og hefur verið notað í hóstamixtúrum frá sjötta áratugnum. mbl.is/Colourbox

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) vill láta banna hóstamixtúru sem inniheldur efnið pholcodine vegna hættu á alvarlegum ofnæmisviðbrögðum einstaklinga sem þurfa að fá svæfingarlyf.   

EMA leggur því til að lyf sem innihalda pholcodine, og eru notuð við þurrum hósta barna og fullorðinna, verði tekin úr sölu.

„Notkun pholcodine innan við tólf mánuði fyrir svæfingu eykur hættu á bráðaofnæmisviðbrögðum við vöðvaslakandi áhrifum svæfingalyfs,“ sagði í yfirlýsingu Lyfjastofnunarinnar. 

Þá segir að bráðaofnæmisviðbrögð séu lífshættuleg. 

Pholcodine er búið til úr ópíóíðum og hefur verið notað í hóstamixtúrum frá sjötta áratug síðustu aldar. 

Nú er leyfilegt að selja lyf með efninu í Belgíu, Króatíu, Frakklandi, Írlandi, Lettlandi, Lúxemborg og Slóveníu undir nöfnunum Dimetane, Biocalyptol og Broncalene. 

Í september sögðu frönsk yfirvöld að það ætti að banna pholcodine vegna hættu á ofnæmisviðbrögðum. 

mbl.is