Átta handteknir fyrir þjófnað á verki Banksy

Mynd af manneskju í náttkjól með gasgrímu og slökkvitæki hvarf …
Mynd af manneskju í náttkjól með gasgrímu og slökkvitæki hvarf af vegg í Gostomel í gær. AFP/Genya Savilov

Yfirvöld í Úkraínu hafa handtekið átta manns fyrir þjófnað á veggmynd sem máluð var af huldulistamanninum Banksy skammt frá Kænugarði.

Mynd af manneskju í náttkjól með gasgrímu og slökkvitæki hvarf af vegg í bænum Gostomel í gær.

„Hópur fólks reyndi að stela veggmynd Banksy. Þeir skáru verkið af vegg húss sem Rússar eyðilögðu,“ sagði Oleksí Kuleba, ríkisstjóri Kænugarðs, og bætti við að að myndin væri í góðu ástandi í höndum yfirvalda.

Hinir handteknu eru á aldrinum 27 til 60 ára og eru íbúar í Kænugarði og nágrenni. Önnur verk á svæðinu sem einnig eru talin vera verk Banksy njóta verndar lögreglu.

Í nóvember birti Banksy mynd af nýju verki, en á því má sjá fimleikakonu í handstöðu í byggingarústum. Hann birti síðan myndskeið af fleiri verkum sínum, þar á meðal manneskjunni með gasgrímuna.

mbl.is