Verðþak á rússneska olíu nemur 8.500 krónum

Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna.
Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Verðþak sem fjármálaráðherrar G-7 ríkjanna hafa samþykkt að setja á olíu frá Rússlandi mun koma í veg fyrir að fyrirtæki greiði meira en 60 Bandaríkjadali, eða tæpar 8.500 krónur, fyrir tunnu af rússneskri hráolíu.

Aðgerðirnar munu taka gildi á mánudag, að því er BBC greinir frá, og eru meðal annars hannaðar til að draga úr áhrifum stríðsins á alþjóðlegt orkuverð.

Í sameiginlegri yfirlýsingu tilkynntu G-7 ríkin, Evrópusambandið og Ástralía að ákvörðunin sé tekin til að koma í veg fyrir að Rússar græði á stríði þeirra gegn Úkraínu.

Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sagði að verðþakið myndi þrengja enn frekar að fjárhag Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta og „takmarka tekjur sem hann notar til að fjármagna hrottalega innrás sína“.

Muni eyðileggja efnahag Rússlands

Yfirvöld í Úkraínu hafa lýst því yfir að verðþakið muni „eyðileggja“ efnahag Rússlands.

„Við náum alltaf markmiði okkar og efnahagur Rússlands verður eyðilagður. Rússland mun gjalda og bera ábyrgð á öllum glæpum sínum,“ sagði Andrei Yermak, starfsmannastjóri forsætaembættis Úkraínu, í dag en bætti við að 30 Bandaríkjadala, eða 4.200 króna, verðþak hefði verið æskilegra til þess að hafa berja niður efnahag Rússlands hraðar. 

Rússnesk yfirvöld hafa tilkynnt að rússnesk olíufyrirtæki muni ekki eiga í viðskiptum við fyrirtæki sem munu vinna samkvæmt verðþakinu.

mbl.is