Bandarísk transkona vill sækja um hæli á Íslandi

„Það er allt annar heimur þarna,“ segir Rynn Willgohs um …
„Það er allt annar heimur þarna,“ segir Rynn Willgohs um Ísland. Ljósmynd/Ted Eytan

Rynn Willgohs, fimmtug transkona frá Fargo í Norður-Dakóta, hyggst flytja til Íslands til að flýja það sem hún lýsir sem hættulegu umhverfi fyrir transfólk í Bandaríkjunum.

„Ég þarf að fara eitthvert þar sem ég veit að ég er örugg,“ segir Willgohs í viðtali við Grand Forks Herald.

Segist hún upplifað sig meira velkomna í íslensku samfélagi þegar hún kom til landsins í sumarfrí. Á Íslandi hafi viðmót gagnvart transfólki verið allt annað en í Bandaríkjunum, þar sem hún upplifir sig utangarðs og finnst henni vera ógnað.

„Það er allt annar heimur þarna,“ segir Willgohs um Ísland.

Hún óttast að aðstæður muni versna í Bandaríkjunum á næstu árum, stjórnvöld muni draga úr vernd fyrir transfólk, þar með talið heilbrigðisþjónustu.

Hjálparsamtök til að hjálpa transfólki að flytja

Transfólk er í verulegri hættu á að verða fyrir ofbeldi í Bandaríkjunum samkvæmt skýrslu Mannréttindavaktarinnar frá árinu 2021.

Willgohs er ekki ein um að vilja yfirgefa Bandaríkin, en hin tvítuga Zara Crystal hyggst sækja um hæli í Svíþjóð. Þær vinna nú saman við að koma á fót hjálparsamtökunum TRANSport til að hjálpa transfólki að flytja frá Bandaríkjunum til annarra landa.

Crystal segist hafa staðið frammi fyrir miklum erfiðleikum í Fargo eftir að hún flutti þangað fyrir þremur árum, en bætir við að það væri ekkert miðað við það sem hún upplifði á öðrum stöðum.

Segir Crystal að á síðustu tveimur mánuðum hafi henni verið hótað lífláti, hún yrði skorin á háls og keyrt yfir hana.

„Jafnvel núna er hættulegt hérna, hversu mikið hættulegra verður það?“

mbl.is