„Ég vil ekki hafa þetta á jólatrénu“

Jólaskraut Þriðja ríkisins. Þessar kúlur tilheyra safnkosti Stríðsminjasafnsins í Lofoten …
Jólaskraut Þriðja ríkisins. Þessar kúlur tilheyra safnkosti Stríðsminjasafnsins í Lofoten þar sem William Hakvaag safnvörður hefur lagt sig í líma við að stilla upp gripum sem sýndu áhrif nasismans á daglegt líf í Þýskalandi. Ljósmynd/Stríðsminjasafnið í Lofoten

Jólaskraut sem Adolf Hitler lét framleiða á sínum tíma gengur nú kaupum og sölum á markaðstorginu Finn.no í Noregi og kveður William Hakvaag, safnvörður Stríðsminjasafnsins í Lofoten, um afar sjaldgæfa gripi að ræða.

„Þetta er sjaldgæft. Þetta er mjög brothætt og því hefur mikið af því glatast í áranna rás,“ segir Hakvaag í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og bætir því við að varla séu þeir margir sem vilji skreyta jólatré sín með kúlum Hitlers sem sumar hverjar bera andlitsmynd hans sjálfs en aðrar hakakrossa, myndir af ungu fólki í Hitlersæskunni svokölluðu og andlitsmynd SS-foringjans alræmda Heinrichs Himmlers.

Hluti skrautsins sem falboðið er á rafræna markaðstorginu Finn.no.
Hluti skrautsins sem falboðið er á rafræna markaðstorginu Finn.no. Skjáskot/Finn.no

Segir Hakvaag enn fremur frá því að mikið magn jólaskrauts með nasistatáknum hafi verið framleitt á árum síðari heimsstyrjaldarinnar, safninu í Lofoten hafi meðal annars áskotnast heilt sett af skrautinu, þar sem meðal annars er að finna hauskúputákn 38. fótgönguliðssveitar SS, Totenkopf-sveitarinnar svokölluðu.

Hefur safnað í 40 ár

NRK setti sig í samband við seljanda á Finn.no sem býður jólaskrautið umdeilda til sölu. Sá óskaði nafnleyndar en sagði skrautið ófalsað og framleitt á stríðsárunum. „Ég keypti það á markaði í Maastricht í Hollandi, ég hef safnað svona löguðu í 40 ár,“ skrifar seljandinn NRK, „annað slagið kemur sú staða upp að ég þarf að rýma til heima og núna byrja ég á þessum kúlum, ég vil ekki hafa þetta á jólatrénu,“ skrifar hann enn fremur.

Hitlersæskan fékk sinn sess á þessu bráðum aldargamla jólaskrauti.
Hitlersæskan fékk sinn sess á þessu bráðum aldargamla jólaskrauti. Ljósmynd/Stríðsminjasafnið í Lofoten

Hakvaag safnvörður hefur skoðað myndir af kúlunum á Finn.no og segir það að öllum líkindum rétt að þær séu ófalsaðar og líkast til framleiddar áður en síðari heimsstyrjöldin braust út. „Kristindómurinn var vonlaus að mati Hitlers. Jesús og það allt saman passaði ekki inn í Þýskaland þess tíma,“ útskýrir Hakvaag, „þá skyldi heldur sýna tákn nýja tímans á jólatrénu með Hitler, Himmler og öðru sem nasismanum tengdist,“ segir hann.

Meira af safnkostinum í Lofoten, jólatréstoppur fyrir miðju.
Meira af safnkostinum í Lofoten, jólatréstoppur fyrir miðju. Ljósmynd/Stríðsminjasafnið í Lofoten

Hakvaag hefur kynnt sér viðhorf nasistaleiðtogans til kristinnar trúar. Hitler hafi til dæmis ekki verið hrifinn af því að þeir sem störfuðu innan þjóðernisflokks hans ræktu tíðir. „Ef þú varst heima um páskana og kvisaðist út að þú hefðir farið í kirkju áttirðu á hættu að vera sparkað,“ segir hann.

Leikfangið „sprengingin“ segir meira en mörg orð um þann félagslega …
Leikfangið „sprengingin“ segir meira en mörg orð um þann félagslega veruleika sem haldið var að börnum í Þýskalandi Adolfs Hitlers. Hluti af heilaþvottinum segir Hakvaag safnvörður. Ljósmynd/Stríðsminjasafnið í Lofoten

Áróðursmaskína nasistanna hafi verið gríðaröflug og jólaskrautið verið ein afurð hennar, barnaleikföng önnur, útskýrir Hakvaag sem hefur gert sér far um að viða að sér safngripum sem sýna áhrif styrjaldarinnar á daglegt líf í Þýskalandi.

„Þetta er óhugnanlegt. Og þetta er hluti af þeim heilaþvotti sem þarna fór fram,“ segir Hakvaag, safnvörður í Lofoten.

NRK

NRKII (Lofoten er í Nordland – hvergi í Noregi finnast meiri stríðsminjar)

NRKIII (innrásin í Noreg 9. apríl 1940 – greinar og sjónvarpsþættir NRK)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert