Fyrsta sprengjuflugvél Bandaríkjanna í 30 ár

B-21 Raider var afhjúpuð við athöfn í Northrop Grumman flugherstöðinni …
B-21 Raider var afhjúpuð við athöfn í Northrop Grumman flugherstöðinni í Kaliforníu. AFP/Frederic J. Brown

Bandaríska varnarmálaráðuneytið, Pentagon, hefur afhjúpað sína fyrstu sprengjuflugvél í meira en 30 ár, eða frá því að kalda stríðið geisaði. Flugvélin getur skotið kjarnorkuvopnum. 

Sprengjuflugvélin, B-21 Raider, er talin vera mikilvægur þáttur í viðleitni Bandaríkjanna til að vinna gegn hernaðaruppbyggingu Kína, en vélin verður fyrst notuð í kringum árið 2027.

Vélin var framleidd af Northrop Grumman, en áætlaður kostnaður hennar nemur 700 milljónum Bandaríkjadala, eða rúmlega 100 milljörðum íslenskra króna, að því er segir í frétt Guardian.

Sex aðrar eru í framleiðslu, en sú fyrsta var sýnd almenningi á föstudag þar sem fyrsta tilraunaflugið er fyrirhugað á næsta ári. Vélin getur borið kjarnorkuvopn og hefðbundin vopn og er hönnuð til að geta flogið án áhafnar. Sprengjuflugvélar sem þessar eru ætlaðar til þess að hæft hernaðarinnviði andstæðingsins á jörðu niðri úr mikilli fjarlægð, með nákvæmni. Einungis Bandaríkin, Kína og Rússland eiga slíkar vélar. 

Verður illgreinanleg

„Fimmtíu ára framfarir í tækni hafa farið í þessa flugvél. Jafnvel háþróuðustu loftvarnarkerfi munu eiga í erfiðleikum með að greina B-21 á himni,“ sagði Lloyd Austin varnarmálaráðherra.

Í árlegri skýrslu Pentagon, sem birt var í vikunni, segir að Kína sé á góðri leið með að búa yfir 1.500 kjarnorkuvopnum fyrir árið 2035. Segir einnig að hernaðaruppbygging Kína sé mesta og kerfisbundna áskorunin fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert