Líkfundur í íbúð í Agder

Lögreglan í Agder rannsakar líkfund í íbúð í Søgne nú …
Lögreglan í Agder rannsakar líkfund í íbúð í Søgne nú í hádeginu. Ljósmynd/Vegfarandi

Maður á fertugsaldri er í haldi lögreglunnar í Agder í Noregi eftir líkfund í íbúð í Søgne þar í fylkinu í hádeginu í dag. Barst lögreglu tilkynning klukkan 12:00 að norskum tíma, 11:00 að íslenskum, um meiri háttar líkamsárás í íbúðinni.

„Þegar lögregla kom á vettvang fann hún látna manneskju í íbúðinni,“ segir Audun Eide, varðstjóri í lögreglunni í Agder, við norska ríkisútvarpið NRK og bætir því við að andlátið sé rannsakað með þeim formerkjum að það hafi borið að með saknæmum hætti.

Svæði í skóginum girt af

Sá handtekni er búsettur á svæðinu en enn sem komið er veit lögregla ekki hvort eða hvernig hann tengist málinu. „Þetta er maður sem var á staðnum, staða hans í málinu kemur í ljós við yfirheyrslu,“ segir Eide.

Søgne er skammt frá Kristiansand í Agder-fylki í Suður-Noregi.
Søgne er skammt frá Kristiansand í Agder-fylki í Suður-Noregi. Kort/Mapbox

Tæknideildarmenn eru nú mættir á vettvang og framkvæma þar rannsóknir sínar auk þess sem lögregla ræðir við nágranna um hvort þeir hafi orðið einhvers varir. Dagblaðið Fedrelandsvennen skrifar að lögregla hafi lokað fyrir umferð um hverfið en einnig girt af svæði í skóglendi í nágrenninu.

NRK

VG

TV2

mbl.is