Siðgæðislögreglan í Íran lögð niður

Mótmæli í Íran hafa staðið yfir í meira en tvo …
Mótmæli í Íran hafa staðið yfir í meira en tvo mánuði. AFP/Armend Nimani

Írönsk stjórnvöld hafa lagt niður siðgæðislögregluna eftir meira en tveggja mánaða mótmæli þar í landi.

„Siðgæðislögreglan hefur ekkert með dómskerfið að gera og hefur verið afnumin,“ sagði Montazeri á trúarráðstefnu eftir að þátttakandi spurði hvers vegna ákvörðunin hefði verið tekin.

Siðgæðislögreglunni var komið á fót undir stjórn Mahmoud Ahmadinejad, fyrrum forseta, til þess að breiða út menningu hæversku og hijab slæðunnar. Lögreglan hóf eftirlit árið 2006.

Tilkynningin kemur í kjölfar þess að Mohammad Jafar Montazeri ríkissaksóknari greindi frá því að stjórnvöld hygðust endurskoða lög sem kveða á um skyldu kvenna til að klæðast höfuðslæðum.

Blóðug mótmæli hafa geisað í Íran undanfarna mánuði. Hófust þau eftir að hin 22 ára Mahsa Amini lést í haldi siðgæðislögreglunnar 16. september. Talið er að hún hafi látist af völdum ofbeldis lögreglu, en hún var handtekin fyrir meint brot á lögum um höfuðslæður kvenna þar sem hárlokkur hennar stóð út undan slæðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert