Viðbragðsaðilar hafa komið enn fleira fólki í nágrenni eldfjallsins Semeru í Indónesíu til bjargar. Yfirvöld vara við hættunni af völdum kólnandi hrauns.
Meira en 2.400 íbúar þorpa í nágrenni fjallsins hafa yfirgefið heimili sín og leitað skjóls í ellefu björgunarmiðstöðvum eftir að fjallið, sem er það hæsta á indónesísku eyjunni Java, gaus snemma í gærmorgun.
„Herinn, lögreglan, aðrir viðbragðsaðilar og embættismenn þorpa halda áfram að hjálpa fólki að komast í burtu frá Curah Kobokan þar sem búast má við heitu öskuskýi og köldu hrauni,“ sagði Abdul Muhari, talsmaður indónesískrar hamfarastofnunar.
„Eins og staðan er núna hafa 2.489 verið fluttir á brott.“
Stjórnvöld í Indónesíu hafa lýst yfir neyðarástandi næstu tvær vikurnar vegna eldgossins.