Ákveður framhaldið „fljótlega“ eftir áramót

Joe Biden og forsetafrúin Jill Biden á sunnudaginn.
Joe Biden og forsetafrúin Jill Biden á sunnudaginn. AFP/Saul Loeb

Joe Biden mun „fljótlega“ eftir áramót taka ákvörðun um hvort hann sækist eftir öðru kjörtímabili sem Bandaríkjaforseti.

Ron Klain, starfsmannastjóri Hvíta hússins, greindi frá þessu.

Á ráðstefnu The Wall Street Journal sagði Klein að Biden hafi undanfarið ráðfært sig við fjölskyldu sína. Hann er áttræður og er nú þegar elsti forsetinn í sögu Bandaríkjanna og ef hann nær öðru kjörtímabili verður hann 86 ára þegar því lýkur.

Klain sagði einnig að hann telji líklegt að Biden bjóði sig aftur fram.

Joe Biden við hátíðlega athöfn í Hvíta húsinu á sunnudaginn.
Joe Biden við hátíðlega athöfn í Hvíta húsinu á sunnudaginn. AFP/Saul Loeb

„Ég heyri frá mörgum Demókrötum víðs vegar um landið að þeir vilja að hann bjóði sig fram,“ sagði Klain. „En forsetinn þarf að taka þessa ákvörðun. Ég býst við því, fljótlega eftir hátíðarnar, en reikna með því að ákvörðun hans verði sú að láta verða af því.“

Eini frambjóðandinn til forsetaembættisins til þessa er Donald Trump, Repúblikaninn sem Biden sigraði árið 2020. Síðan þá hefur Trump haldið áfram að dreifa út samsæriskenningum um að brögð hafi verið í tafli í kosningunum án þess að nokkrar sannanir þess efnis hafi komið fram.

Eftir að Demókrötum gekk betur en búist var við í þingkosningunum í nóvember sagði Biden að hann hefði í hyggju að bjóða sig aftur fram en bætti við að hann yrði ekki viss fyrr en „snemma á næsta ári“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert