Dularfullur hlutur vekur athygli í Flórída

Hluturinn fannst á Daytona-strönd. Ekki er búið að grafa hann …
Hluturinn fannst á Daytona-strönd. Ekki er búið að grafa hann upp. AFP/Ricardo Arduengo

Dularfullur 24 metra langur hlutur sem gægist undan sandinum á Daytona-ströndinni í Flórída í Bandaríkjunum hefur vakið mikla forvitni meðal íbúa í Volusia-sýslu.

Hluturinn kom nýlega í ljós undan sandinum eftir að fárviðri fór þar yfir í síðasta mánuði og hefur teymi fornleifafræðinga verið gert viðvart um uppgötvunina, að sögn Kevins Captain, talsmanns yfirvalda í Volusia. New York Times greinir frá.

Hluturinn ráðgáta

Ýmsar kenningar hafa farið á flug á samfélagsmiðlum um uppruna hlutarins en netverjar hafa m.a. giskað á að undir sandinum liggi hluti úr gamalli bryggju, áhorfendasæti frá því þegar keppt var í Nascar-kappakstri á ströndinni og brak úr gömlu skipi sem fórst.

„Þetta er ráðgáta,“ segir Tamra Malphurs, yfirmaður strandaröryggisgæslu í Volusia-sýslu. 

„Margir hafa getið sér til um að þarna sé gamalt skip.“

Fornleifafræðingar ætla að rannsaka hlutinn sem lítur út fyrir að vera samsettur úr löngum viðarbitum. „Það gæti líka verið einhver málmur þarna, við erum ekki viss,“ segir Malphurs við blaðamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert