Lögreglan skaut 16 ára pilt í höfuðið

Þessi mynd, sem var tekin í gær, sýnir konu á …
Þessi mynd, sem var tekin í gær, sýnir konu á leið fram hjá brennandi vegatálmum sem Róma-fólk setti upp fyrir framan sjúkrahúsið, þar sem pilturinn sem var skotinn liggur nú þungt haldinn. AFP/Sakis Mitrolidis

Mikil reiði hefur blossað upp í Grikklandi eftir að lögreglan í landinu skaut 16 ára pilt í höfuðið þegar hann ók á brott frá bensínstöð án þess að borga.

Atvikið er það nýjasta af mörgum undanfarið sem snúa að meintu lögregluofbeldi í landinu. Ár er liðið síðan annar piltur af Róma-uppruna var drepinn í borginni Piraeus eftir eftirför lögreglu.

Pilturinn sem var skotinn í höfuðið berst nú fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi. Skyldmenni hans mótmæltu vinnubrögðum lögreglunnar í borginni Þessalóníku og síðar í gær köstuðu mótmælendur bensínsprengjum.

AFP/Sakis Mitrolidis

Lögreglan segist hafa hafið skothríð til að koma í veg fyrir að pilturinn keyrði pallbíl á lögregluþjóna á mótorhjólum þegar hann reyndi að flýja.

Mótmæli verða haldin í þó nokkrum grískum borgum í dag í minningu annars tánings, Alexandros Grigoropoulos, sem lögregla skaut til bana árið 2008.

Í síðasta mánuði birtist myndskeið úr síma, tekið af svölum í borginni Aþenu, af óreiðalögreglu lemja hóp fótboltaáhangenda, að því er virtist án tilefnis.

Sakaði tvo lögregluþjóna um nauðgun

Í október sakaði 19 ára stúlka síðan tvo lögregluþjóna um nauðgun á lögreglustöð í Aþenu.

Reiði í garð lögreglunnar jókst þegar lögmaður annars lögregluþjónanna sagði að stúlkan hefði „daðrað“ við þá báða og að þeir hefðu „látið undan fantasíum stúlkunnar“.

mbl.is