Samþykkja lög sem banna kynlíf utan hjónabands

Frá mótmælum fyrir utan þinghúsið í Jakarta í gær.
Frá mótmælum fyrir utan þinghúsið í Jakarta í gær. AFP/Adek Berry

Nýlega samþykktar breytingar á hegningarlögum í Indónesíu sem kveða m.a. á um eins árs fangelsisvist fyrir kynlíf utan hjónabands, hafa vakið upp mikla reiði meðal íbúa.

Nýju lögin taka gildi eftir þrjú ár en talið er að þau muni skerða réttindi fólks verulega en þau ná til Indónesa jafnt sem erlendra ferðamanna sem dvelja í landinu.

Aðgerðasinnar óttast að lögin muni koma til með að hafa meiri áhrif á konur, hinsegin fólk og aðra minnihlutahópa í landinu og hafa mótmælendur safnast fyrir utan þinghúsið í höfuðborginni Jakarta til að láta í sér heyra. BBC greinir frá.

Tjáningarfrelsi einnig skert

Breytingarnar fela m.a. í sér ný siðferðislög sem banna ógiftum pörum að búa saman og stunda kynlíf. Þá verður framhjáhald einnig ólöglegt og varðar það fangelsisvist. Foreldrar og makar geta tilkynnt um brot gegn lögunum til yfirvalda.

Þá kveða lögin einnig á um skerðingu á tjáningarfrelsi en samkvæmt breytingunum verður ólöglegt að móðga forsetann og tala gegn hugmyndafræði ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert